87 klukkustundir
- Margrét
- Jun 6, 2020
- 11 min read
Updated: Jun 9, 2020
Það var sól í heiði síðasta grunnskóladaginn þegar yngsti sonur minn útskrifaðist úr 10 bekk. Þar með var ég líka útskrifuð sem grunnskólamamma eftir 22 ára samfellda setu á þeim bekk. Tilfinningarnar voru blendnar. Að springa úr stolti yfir syninum sem hefur blómstrað í skólanum á ýmsum sviðum og fengið að njóta sín, og hins vegar vottur af söknuði að þessu tímabili væri lokið. Og einmitt á meðan ég sat og fylgdist með fallegri útskriftarathöfninni hvarflaði hugurinn aftur til upphafsdagana og alls þess sem við gengum í gegnum þegar þessi ungi maður átti að hefja skólagöngu. Sá tími var svo sannarlega mikill tilfinningarússíbani.
Skóli án aðgreiningar er fallegt hugtak og ekki vantar upp á fræðigreinar og sérfræðingaálit um innihald, markmið og allt þetta fallega sem skóli án aðgreiningar þýðir á fagurfræðilegu máli. Ef við skoðum Aðalnámskrá grunnskóla frá árinu 2011:
,,Menntun án aðgreiningar er samfellt ferli sem hefur það að markmiði að bjóða upp á góða menntun fyrir alla. Borin er virðing fyrir fjölbreytileika og mismunandi þörfum, hæfileikum og einkennum nemenda og leggja skal áherslu á að útrýma öllum gerðum mismununar og aðgreiningar í skólum (Mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013:41).“
Við höfum öll heyrt þessa umræðu á fallegum skólaþingsdögum og ráðstefnum á vegum Menntamálaráðuneytisins. Allir jafnir – allir sömu tækifæri. Enginn á að líða fyrir neitt þegar að skólagöngu kemur, alveg sama á hvaða stigi það er. Fallegt í orði en hefur kannski gleymt að útfæra það út fyrir hátíðarræðupúltið. Það er að minnsta kosti mín reynsla.
Sjálf tel ég mig ágætlega spjallfæra um þetta hugtak. Er 1/3 kennari úr gamla Kennaraháskóla Íslands en var þar nemandi veturinn 1992 – 1993 og tók kúrsa í menntun án aðgreiningarfræðum og heyrði ekki talað um annað þann vetur. Starfaði sem afleysingakennari í grunnskóla, m.a. í sérdeild og með kennsluréttindi, svona ef einhver er að spá í hvað ég sé að derra mig og ræða þetta hugtak sem er heilagt í skólakerfinu á Íslandi. Eflaust virkar þetta hugtak í einhverjum skólum og yfir einhverja hluta en að mínu mati, sem foreldri og leikmaður í skólakerfinu sl. 30 ár, finnst mér eins og gleymst hafi að svona hugmyndafræði yfir jafn stóran málaflokk og heilt menntakerfi, kostar útfærslu, fjármuni, mannafla og kannski ekki síst nýja verkferla ef þetta á að virka í raun og veru eins vel og þetta er útlistað í hátíðarræðum.
Mig langar að deila með ykkur persónulega reynslusögu af skóla án aðgreiningar og hvað það merkir fyrir foreldri sem hafði það eitt að markmiði að vilja barninu sínu það besta og vilja að það blómstri í grunnskóla. Stundum geta þættir eins og 87 klukkustundir skipt gríðarlega miklu máli í stóra samhenginu eins og hvenær má hefja skólagöngu og á hvaða hillu þú ert settur alla skólagönguna. Aðalsögupersónan í þessari frásögn hefur gefið góðfúslegt leyfi fyrir birtingu hennar.
Þetta er samt saga með góðan endi þannig að það sé á hreinu svona í upphafi. Þetta er samt saga sem ég held að þurfi að heyrast og ekki síst innan stjórnsýslunnar, því við vitum jú öll að við erum ekki öll eins, og við fáum ekki öll sömu forgjöf á upphafsdögum ævinnar. Ef að þessi saga breytir einhverju i framtíðinni fyrir þau börn sem eru á svipuðum stað þegar þau eiga að byrja í skóla, eða eru svo óheppin að fæðast of snemma og lenda á milli árganga eins og sögupersónan í þessari sögu, þá er tilganginum með sögunni náð.
Sjálf var ég svo heppin að búa í Danmörku með tvö elstu börnin mín og kynntist því ólíkri skólamenningu en tíðkast á Íslandi. Þar heyrði ég aldrei talað um hugtakið skóli án aðgreiningar, en hins vegar var allt menntakerfið miklu einstaklingsmiðaðra en hérlendis. Þegar eldri sonur minn, sem er fæddur í september, átti að hafa sína skólagöngu árið sem hann var 6 ára, var það ekki sjálfsagður hlutur. Börnin þurftu að vera orðin 6 ára til að mega byrja í 1. bekk (sem hét þá 0 bekkur/undirbúningsbekkur) og þau sem voru ekki alveg tilbúin og fædd seint á árinu voru látin bíða fram á næsta skólaár. Bekkurinn samanstóð því af tveimur árgöngum. Það þurfti virkilega að sannfæra skólastjórnendur um að hann væri tilbúinn til að hefja nám í grunnskóla, enda læs og meira en tilbúinn í þessa vegferð, og því fékk hann fyrir náð og miskunn að byrja það haust og var yngstur í sínum bekk. Að hafa upplifað þetta og sjá hvernig önnur skólakerfi virkuðu átti heldur betur eftir að hjálpa til í baráttunni síðar.
Yngri sonur minn átti að fæðast seint í febrúar árið 2004 en vegna alvarlegrar meðgöngueitrunar var hann tekinn með hraði í bráðakeisara 28. desember 2003. Ef hann hefði bara fæðst á réttum degi væri ég ekki að skrifa þessa grein. Og ef hann hefði bara verið 87 klukkustundum lengur í móðurkviði hefði ég heldur ekki verið að skrifa þessa grein. Þá hefði hann endað á réttu 2004 hillunni. En hann var fyrirburi sem fæddist á 33. viku, mjög smávaxinn og fíngerður og lengi að ná upp þyngd og hæð en eldklár og duglegur strákur í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur. Keppnisskapið kom strax í ljós á fyrstu klukkustundum lífsins.
Hann hóf leikskólagöngu á Íslandi 3 ára í frábærum leikskóla þar sem honum leið vel, óx og dafnaði. Árið sem hann átti að byrja í grunnskóla árið 2009 var farið að undirbúa grunnskólagönguna með ýmsum hætti eins og t.d. skólaheimsóknum. Ég var mjög hugsi yfir þessu á þessum tímapunkti þar sem mér fannst hann engan veginn tilbúinn í grunnskólalífið og þann harða heim sem beið hans um haustið. Hann var ennþá mjög smávaxinn og léttur, langt undir kúrfu og svaf ennþá á daginn vorið sem skólaheimsóknirnar voru í gangi. Ég skynjaði þetta vandamál en sá enga lausn á því hvað hægt væri að gera. Það var samt eiginlega hann sjálfur sem kom með hugmynd sem varð að þrautagöngunni. Sonur minn átti alltaf mjög litla samleið með krökkum sem voru fædd árið 2003 en bestu vinir hans voru tveir strákar á leikskólanum sem voru fæddir í janúar 2004 annar meira að segja einungis viku yngri hann. Einn daginn eftir skólaheimsókn spurði ég út í hvort það hefði ekki verið gaman og hvort hann væri ekki spenntur að byrja í skóla. Þá dæsti hann og svaraði mæðulega; ,,Æj nei, mig langar bara ekkert í þennan skóla núna. Mamma, má ég ekki bara bíða og fara með vinum mínum þegar þeir byrja í skóla?“
Þá var mér hugsað til kerfisins í Danmörku og ýmsar vangaveltur skutu upp kollinum. Af hverju ekki að leyfa þeim að verða 6 ára áður en þau byrja í grunnskóla eins og þar? Af hverju verður að hengja sig á almanaksárið þegar skólabyrjun er ákveðin, óháð því hvenær á árinu barnið fæðist og hvernig það er statt í þroska? Fljótlega var ég búin að kortleggja þessa hugmynd og verkefnið að fá að vera ári lengur í leikskóla og fresta skólagöngu var formlega hafið. Gleðin var mikil hjá unga manninum þegar honum var sagt að við skyldum reyna en ekki hægt að lofa neinu um hvort að það yrði að veruleika. Leiðin framundan var löng og ströng.
Það sem hjálpaði mikið var að skólastjórinn var nátengdur fjölskyldunni og gerði allt sem hann gat til að styðja okkur í þessu verkefni. Um leið og ég var búin að útskýra þessa beiðni fyrir honum rökstuddri með mikilli greingargerð varð hann mikill bandamaður í ferlinu. Sömuleiðis var leikskólastjórinn yndisleg og studdi okkur heilshugar í þessari ákvörðun. Ég las grunnskólalögin í ræmur og vissi að hann átti rétt á þessu. Ég hafði samband við Skóla- og frístundasvið og fékk einhver blabla svör og enginn vissi neitt, alveg sama við hvern ég talaði þar. Ég fann hvergi upplýsingar um hvernig svona beiðni gengi fyrir sig. Ég fékk síðar að heyra að vandamálið væri að ekkert foreldri hafði áður beðið um að fresta skólagöngu barnsins og því vissi enginn hvernig átti að tækla þetta. Það voru ekki til ferlar. Við erum að tala um Reykjavíkurborg, stærsta bæjarfélag landsins með yfir 15 þúsund nemendur, ekki 50 manna byggðarlag úti á landi.
Ég hringdi í þjónustumiðstöð borgarinnar og spurðist fyrir um þetta, en nei – það eru til ferlar um það þegar foreldrar óska eftir því að börn fá að fara fyrr í skóla, en ekki að seinka þeim um ár eða 87 klukkutíma. Við getum ekki svarað þér. Fjöldi tölvupósta gekk manna á milli og nokkrir fundnir voru haldnir en engin niðurstaða. Á einum þeirra voru kennarar og sérfræðingar úr skólakerfinu og margir sem reyndu að sannfæra þessa erfiðu mömmu um að láta drenginn bara byrja í haust og hætta þessu veseni. Einn þeirra sagði setningu sem situr alltaf í mér. Viðkomandi hafði unnið í skólakerfinu í miklu meira en 25 ár og hitt mörg börn sem voru fædd seint á árinu og lítil og öll höfðu þau nú spjarað sig að lokum. Ég svaraði því að það væri dásamlegt að heyra, en mín ósk væri að hann myndi ekki bara spjara sig heldur blómstra. Ég fann augnaráðið, engin orð voru þörf. Ég þótti skrýtna mamman og lúserinn á þessum fundum en ákvað að láta það ekki stoppa mig. Við tók löng bið. Frá maí fram í ágúst vorum við í algjörri óvissu hvort þetta væri mögulegt.
Leikskólastjórinn hélt plássinu fyrir drenginn, en aldrei heyrðist orð frá Skóla- og frístundasviði sem ég hefði haldið að hefði stjórnvaldsvaldsúrskurð í umsóknum sem þessum. Í ágúst var haft samband frá þjónustumiðstöðinni í okkar hverfi og við boðuð á fund með sálfræðingi og fleiri sérfræðingum. Þar var farið enn einu sinni yfir greinargerðina sem ég hafði sett fram með beiðninni fyrr um vorið. Á þeim fundi uppgötvaði ég allt í einu af hverju þetta var svona mikið vesen. Þetta hafði ekkert með barnið að gera eða þarfir þess. Þetta snerist um peninga. Búið var að eyrnamerkja fjármuni á barnið eða kennitöluna – og búið að setja í grunnskólasjóðinn. Vandamálið var að bakfæra þá upphæð aftur til baka í leikskólann. Mikið svakalega sveið þetta sárt að uppgötva að sálarheill og hagsmunir barnsins voru ekki það sem skiptu mestu máli og væri verið að vesenast með að meta, heldur fjárhagslegu áhrifin eða öllu heldur að millifæra til baka út frá kennitölunni. Debit og kredit. Skóli án aðgreiningar, einmitt.
Nokkrum dögum seinna fékkst staðfestingu á því að beiðnin hefði verið samþykkt og hann fengið að hefja skólagöngu ári síðar. Að sjálfsögðu var það mikill léttir og gleðin mikil þegar þessi niðurstaða lá fyrir.
Ef þið haldið að sagan sé búin hér, þá er það mikill misskilningur. Í gegnum öll þessi 10 ár sem drengurinn hefur verið í grunnskóla hef ég ekki tölu á því hversu oft ég hef þurft að berjast við kerfið af því „computer says no“ og „nei það gengur ekki, hann er fæddur árið 2003 en þetta er bara fyrir 2004 árgang“. Við erum að tala um reiðhjólahjálmagjafir, sumarnámskeið, skráningar á frístundaheimili, íþróttaiðkun, ferminguna svo fátt eitt sé nefnt. Börnin okkar eru ekkert nema kennitölur í kerfinu, og þótt þau fái leyfi til að hefja skólagöngu ári seinna, þá hangir hin kennitalan inni eða öllu heldur ártalið og stjórnar öllu.
Og svo kemur hin sagan nátengd þessu en ekki eru til lög sem ég hef fundið sem ég get vísað til þar sem þetta er komið út fyrir skólalóðina. Fyrir mér er þetta meira svona kommon sens miðað við þessar aðstæður þegar barn hefur skólagöngu síðar og fer á hálfgert kennitöluflakk en samt í jákvæðari merkingu orðsins en við þekkjum úr viðskiptalífinu.
Sonur minn hefur alla tíð verið mikill handboltaunnandi og var farinn að æfa handbolta 5 ára. Í mínum augum er íþróttaiðkun barna mjög félagsleg og því eðlilegt að þau sækist eftir að æfa íþróttir með bekkjarfélögum sínum og jafnöldrum. Á fyrstu árunum æfði hann með sínum bekkjarfélögum, en svo var það þegar hann var búinn að spila síðasta mótið árið sem hann var 9 ára kom þjálfarinn hans að máli við mig og segir að hann verði að fara að æfa með strákum sem eru fæddir 2003. Ég varð mjög hissa og spurði hvernig stæði á því. Jú – reglur HSÍ gera ráð fyrir að þegar iðkendur eru komnir í 6. flokk eða 10 ára, verði að þau að vera á réttu aldursári, annars sé hætta á að félagið verði kært.
Blóðþrýstingurinn hækkaði örlítið og ég fór að lesa lög og reglugerðir. Jú mikið rétt. Í 1. kafla 2. gr. stóð þetta svart á hvítu hvernig aldursskiptingin eigi að vera og auk þess stendur:
,,Keppendum í handknattleik skal skipt í aldursflokka á eftirfarandi hátt og miðast við almanaksárið. 01.01.–31.12., þannig að keppendur séu á tilgreindum aldri árið sem keppnistímabil hefst."
Félagið og þjálfarnir gerðu ekkert til að styðja við mig í þessari viðleitni að leyfa honum að fá að æfa með sínum vinum. Höndum var bara fórnað og því svarað til að þetta væru reglur HSÍ og þjálfararnir vildu ekki fá á sig kæru. Eftir að hafa lesið reglurnar aftur og aftur í von um að finna holu sem ég gæti nýtt mér, hafði ég samband við framkvæmdastjóra HSÍ og kannaði hvort það væri hægt að gera undantekningu vegna þessara aðstæðna þannig að hann fengi að æfa og keppa með félögum sínum. Það var ekki möguleiki af hans hálfu. Vísaði aftur og aftur í þessar reglur og ef hann fengi undanþágu að keppa með 2004 þá yrði það bara endalausar kærur af þjálfurum hinna liðanna og allir vildu undanþágur. Ég bauðst til að hringja í alla þjálfarana sem liðið myndi hugsanlega keppa við og útskýra málið ef hann fengi þessa undanþágu, en svarið var þvert nei. Undanþáguna fengi hann ekki og ef hann vildi æfa handbolta yrði hann að hlíta þessum reglum. Mikið rosalega hefur mér oft sárnað þessi viðbrögð þegar ég horfði á hann hendast í gólfið og meiðast undan strákum sem eru í raun 2 árum eldri og miklu stærri og sterkari. Aldrei gafst hann upp þrátt fyrir langa meiðslasögu og að hafa frá 10 ára bara æft með bekkjarfélögum sínum í flokki annað hvort ár en ekki mátt keppa með þeim.
Ég skil alveg að reglur þurfi að vera reglur, og koma í veg fyrir svindl en að hafa ekki sveigjanleikann til að leyfa 10 ára barni, sem er langt undir hæð og þyngd og ógnar ekki neinum mótherjum, ekki að spila niður fyrir sig fram á unglingsárin, þá spyr maður sig hvar er sveigjanleikinn í skóli án aðgreiningar. Nær hann bara innan skólakerfisins en ekki í íþrótta og frístundastarfi? Hver er að hugsa um hagsmuni barnsins í þessum máli? Hvar er mannlegi hlutinn í þessum kafla? Ég veit til þess að KSÍ hafi veitt undanþágu hjá sér í svipuðu tilfelli og þessu sem ég er að lýsa hér að ofan, og viðkomandi fékk að spila með sínum bekkjarfélögum þangað til hann var orðinn 15 ára. Mikið svakalega vona ég að HSÍ breyti sýn sinni á stífum reglum og sýni mannlegri hliðar og taki svona undantekningartilfelli til skoðunar í framtíðinni. Við breytum ekki fortíðinni og þeim ákvörðunum sem voru teknar í þessu máli en ég vona svo sannarlega að þeir sem koma á eftir og eiga hugsanlega eftir að fá meiri skilning á aðstæðum sem þessum í öllum íþróttafélögum og íþróttagreinum.
En þá fer að koma að lokakafla í þessari skólasögu um skóla án aðgreiningar sem ég held því miður að séu ennþá bara falleg orð á blaði á hátíðarstundum.
Mín barátta snerist um að kerfið meðtæki hann sem einstakling fæddan árið 2004 rétt eins og hann átti að vera ef meðgangan hefði gengið eðlilega fyrir sig. Á hverju einasta ári fæðast hér á landi hundruðir fyrirbura og stundum löngu fyrir áætlaðan fæðingardag. Þessir einstaklingar hljóta að eiga rétt á að vera til í kerfinu út frá þeim fæðingardegi sem er áætlaður en ekki sá sem þeir fæðast á. Sömuleiðis er fullt af börnum sem fæðast á síðustu dögum ársins og eiga kannski meiri samleið með börnum fæddum í janúar á næsta ári, en þeim sem eru fædd í janúar á sama fæðingarári.
Ég vona svo sannarlega að kerfið sé orðið sveigjanlegra og það séu til ferlar þegar upp koma beiðnir eins og ég sendi inn árið 2009. Af því lífið er ekki bara svart eða hvítt og kennitala. Að hægt sé að gera undantekningartilfelli þar sem 8, 80 eða 400 klukkustundir geta skipt máli þegar þessi blessuð börn fæðast í þennan heim. Ég vona líka svo innilega að allt umhverfið í kringum íþrótta- og félagsstarf taki líka mið af þörfum þessara barna sem hefja grunnskólagönguna síðar en kennitalan ein og sér segir til um.
Á meðan ég sat og horfi á unga manninn minn útskrifast og hugsa til baka aftur um 11 ár þá voru allir erfiðleikarnir við þessari beiðni, allir fundirnir, tölvupóstarnir og símtölin, skrýtnu augnaráðin og mótlætið við hugmyndinni svo mikið þess virði þegar ég lít til baka og horfi á hvar hann stendur í dag. Ég var þá svo viss um þetta væri honum fyrir bestu og fékk fullvissu á útskriftardeginum að þetta var svo hárétt ákvörðun. Og þótt ég hafi nefnt hérna margar hindranir á veginum sem voru góðar æfingar í þolinmæði og þrautseigu, þá á sama tíma er ég líka svo ótrúlega þakklát öllu því góða fólki sem lagði okkur lið og aðstoðaði við að ná þessu markmiði.
Í mínum huga sem áhorfanda á hliðarlínunni hefur þetta verið ánægjuleg skólaganga, full af ævintýrum, uppákomum og i heildina dásamlega þroskasaga ungs manns. Hann hefur staðið sig vel í námi, umkringdur góðum vinum og félögum, tekið þátt í félagslífi og öflugur í skólastarfi. Meira getur maður ekki óskað börnunum sínum. Kannski hefði þetta verið alveg eins ef hann hefði byrjað á réttum tíma, það fæ ég aldrei að vita. Í mínum huga hefur hann náð að blómstra í skólaumhverfinu og ná þessum árangri, af því að hann var með vinum sínum og félögum sem hann treysti og þar sem hann fann sig sem jafningja og fékk að ganga í takt með þeim í gegnum grunnskóla. Markmiðið með baráttunni var hann fengi að blómstra og njóta sín á sínum forsendum og það náðist.
Hjartað var að springa af þakklæti þegar ég gekk í burtu af skólalóðinni í síðasta skiptið þetta fallega júníkvöld.



Comments