top of page
Search

Höfnunartilfinningin á haf út

Updated: Jan 18, 2022


ree

Ekki alls fyrir löngu upplifði ég það á gamalsaldri að yfir mig heltist gamalkunnug höfnunartilfinning.

Tilfinningin að tilheyra ekki, að vera ekki hluti af „rétta“ hópnum vegna flækjufótar í blönduðum fjölskyldum í ákveðnum aðstæðum. Ég hélt að ég væri löngu búin að tækla þessa gömlu höfnunartilfinningu innra með mér og hætt að láta hana hafa áhrif á mig. En þarna blossaði hún upp gamla sársaukafulla skilnaðarbarna höfnunartilfinningin úr barnæsku. Það kom svo sjálfri mér á óvart að upplifa þetta svona sterkt við þessar aðstæður sem mér fannst ég löngu búin að afgreiða og því ákvað ég að skoða aðeins betur af hverju við upplifum höfnunartilfinningu og við hvaða aðstæður.

Vafalaust er höfnunartilfinningin ein af þessum tilfinningum sem við náum ekki að setja orð og fanga fyrr en við verðum fullorðin, þótt hún fylgi okkur úr barnæsku. Að upplifa það að vera hafnað, að hafa það á tilfinningunni að þú sért ekki nógu góð(ur), falleg(ur), skemmtileg (ur) eða sterk(ur) eins og þú ert sem manneskja, og það sem þú stendur fyrir, getur verið sár og erfið tilfinning að eiga við. Þegar við erum börn og ungmenni getum við kannski ekki komið þessu í orð en þegar við eldumst og förum að geta tjáð okkur betur er auðveldara að sjá þetta og koma því í orð. Og með allri samfélagsmiðlabyltingunni getum við verið fullviss um að mjög stór hópur notenda þeirra sé einmitt að upplifa höfnunartilfinningu úr samfélagsmiðlaheimi ef „like"- in eru ekki nógu mörg eða stöðufærsla eða myndir vekja ekki þau viðbrögð sem til var ætlast.

Margir eiga kannski fyrsta minninguna um höfnun þegar þeir voru skildir útundan í leik á leikskóla. Eða fyrir þá sem voru ekki sterkir á íþróttasviðinu, eru kannski fyrstu höfnunarminningarnar þegar verið var að velja í fótboltaliðið eða brennó, og þú varst aftast í röðinni af því þú „sökkaðir“ í leiknum. Og hver man ekki eftir að vera sagt upp af kærustu/kærasta í fyrsta skipti og öllum hjartakvölunum og höfnuninni sem því fylgdi. Þessi stund þegar þú hélst að þú myndir einfaldlega deyja úr ástarsorg og höfnunartilfinningu. Eftir því sem við eldumst, þá flækist líf okkar og það að vera hafnað af einhverju tagi verður stærri hluti af lífinu og birtast með margbreytilegri hætti. Við dettum út úr vinahópum, missum vinnuna, föllum í skóla og svo mætti lengi telja.

Skilnaðarbörnin eru meistarar meistaranna í að upplifa höfnun. Fyrst í raun höfnun á því að fjölskyldan leysist upp með tilheyrandi sjálfsásökunum og síðan hefst stórkostlegt ferli foreldra, fólksins sem þú elskar mest og berð mest traust til, að búa til nýjar fjölskyldur og þú sem barn, þarft að hamast við að finna þér stað í nýju mynstri. Í því ferli færðu ansi oft tilfinninguna að þú sért rangur maður á röngum tíma, í vitlausum húsi. Fjölskyldupúslið getur oft á tíðum verið mjög flókið og oftar en ekki mistekst að búa til heildarmyndina því púslkubbar detta undir sófa og týnast. Og ekki má gleyma því hlutverki að vera maki í nýrri fjölskyldu og finna sinn stað þar. Þannig má líka segja að þeir sem hafi upplifað skilnað eru líka mjög reynslumiklir í mörgum birtingarformum höfnunartilfinningarinnar.

Það er í raun alveg magnað að í nútímasamfélagi þar sem blandaðar fjölskyldur eru að verða normið frekar en þessar hefðbundnu (með mömmu, pabba og börnum sem eru saman um aldur og ævi) að það sé ekki meiri fókus á því hvernig fólkinu og þá sérstaklega börnunum líður í þessum samsettu fjölskyldum. Það var skemmtileg tilviljun að eftir að ég byrjaði að skrifa þennan pistil sá ég einmitt grein um stjúpfjölskyldur en þá var verið að ræða hvernig stjúpforeldrar eru að upplifa höfnun. Það væri mjög áhugavert að skoða líka og rannsaka líðan barnanna að sama skapi.

Það eru svo margar aðstæður sem geta komið upp í lífi fólks sem það upplifir þessa sársaukafullu höfnunartilfinningu og það upplifir sig sem tapara í aðstæðum sem það er að kljást við. Öll þráum við að vera meðtekin fyrir það sem við erum og það er okkur eðlislægt að reyna eins og við getum að vilja falla í kramið, verða meðtekin af samfélagi sem við viljum að vera hluti af, hvort sem það er gagnvart maka, fjölskyldum, vinahópum og vinnufélögum.

Í grunninn snýst höfnunartilfinning einmitt um þá tilfinningu að upplifa sig ekki falla inn í hópinn eða tiltekið mynstur. Að þú sért ekki nóg eins og þú ert, og að þú fyllir ekki upp í eitthvað mót sem sú manneskja eða hópur sem framkallar þessa líðan hjá þér vill að þú sért til að mega tilheyra. Og ef þú ert það ekki, er þér hafnað. Þótt þessi tilfinning framkallast í samskiptum í mismunandi aðstæðum eða á mismunandi þroskastigi, þá skiptir í raun engu máli hvort þú sért barn, unglingur, starfsmaður, vinkona, kærasti eða foreldri. Höfnunartilfinningin er alltaf jafn sár og framkallar oft fram vanmátt, tómleikatilfinningu og þá tilfinningu að þú sért ekki nóg.

Það gekk mikið á í samfélaginu fyrir nokkrum árum þegar ung kona steig fram á sjónarsviði og fór að ræða hugtakið ,,ég er nóg“ . Sálfræðingar og alls konar sérfræðingar voru alls ekki á eitt sáttir við framsetninguna og þá umræðu sem skapaðist í kjölfar þessara ummæla. Þegar hún var spurð út í hvað lægi að baki ,, ég er nóg“ þá var boðskapurinn mjög einfaldur. Að hvert og eitt okkar væri nóg eins og við værum. Við þyrftum ekki spegil frá öðrum til að öðlast samþykki. Og ef við heimfærum það aðeins á allt sem hér var skrifað að ofan um höfnunina, má segja að með þessu orðatiltæki/möntru - ,,ég er nóg“, ertu að segja að þótt aðrir hafni þér, á hvaða forsendum eða undir hvaða kringumstæðum það nú er, þá ert þú sem manneskja samt alltaf nóg. Þú velur alltaf þig. Mikilvægið felst í að þú standir með sjálfum þér og þínum prinsippum og sért ekki að reyna að þóknast til að uppfylla þessar væntingarkröfur. Þú þarft ekki viðurkenningu annarra til að vera metin að verðleikum. Hægara sagt en gert, þar sem í grunninn erum við félagsverur og það er okkur eðlislægt að vilja tilheyra ákveðnum hópum.

Út frá þessum pælingum velti því ég fyrir mér hvort það geti verið að við þurfum bara að æfa okkur meira og betur í að segja ,,ég er nóg“ við okkur sjálf í speglinum á hverjum degi? Æfa okkur í að styrkja okkur í fallegum og jákvæðum hugsunum um eigið ágæti og byggja okkur sjálf upp. Hætta að mæla okkur út frá fyrirframgefnum ímynduðum mælikvörðum um eigið ágæti og hvaða hópum við tilheyrum og tilheyrum ekki. Og gefa bara ömurlegu höfnunartilfinningunni gott frí fyrir lífstíð. Hætta að hugsa um hvar okkur sé að mistakast og af hverju okkur finnst okkur hafnað. Ekki leyfa því að lita okkur sem manneskjur og stöðu í samfélaginu hvort við höldum að við séum fyrir einhverjum, eigum við vera stödd í öðrum hópi, eða halda að við séum ekki velkomin. Finna hópana sem okkur líður vel og upplifum að tilheyrum og velta því ekki fyrir okkur hvar samfélagið eða tiltekinn hópur vill staðsetja okkur.

Það, hvar okkur líður best, og hvar okkur finnst við tilheyra, er þegar upp er staðið það eina sem skiptir máli í stóru myndinni. Það er nefnilega svo oft okkar eigin hugsanir sem brjóta okkur mest niður og framkalla þessa höfnunartilfinningu. Við höfum því sjálf gríðarlega mikið vald innra með okkur til að stoppa hugsanirnar og beina þeim í annan farveg og byggja okkur upp í það þess að rífa okkur niður. Ég veit fyrir mitt leyti að næst þegar ég mun upplifa þessa vondu og niðurbrjótandi höfnunartilfinningu, mun ég beina allri orkunni í ,,ég er nóg“ hugsunina í þeirri von að bæla niður þessa leiðindardrauga hafa fengið að leika lausum í alltof langan tíma. Það er svo margt til í setningunni að allt sem þú beinir athyglinni að vex og dafnar og höfnunartilfinningin er þar hvergi undanskilin. Hættum að hlúa að henni og beinum athyglinni í allt þetta góða og jákvæða sem einkennir okkur með manneskjur því við getum öll sagt með stolti við okkur sjálf ,,ég er nóg“ og kastað blessaðri höfnunartilfinningunni á haf út í eitt skipti fyrir öll.

 
 
 

Comments


©2020 by Lukkan made with Wix.com

bottom of page