top of page
Search

Stundum vinnum við - stundum lærum við


ree

Öll þekkjum við hugtökin að gera sitt besta, að læra af mistökunum og að lífið haldi áfram. Við lesum þau og hugsum um þau þegar eitthvað bjátar á í lífinu og okkur vantar stuðning og jákvæða orku til að geta haldið áfram. Þessi hugtök fengu alveg nýja merkinu í mínum huga um daginn og mig langar að deila því með ykkur.

Þetta var undurfagur haustdagur og ég ákvað að vígja nýju Sony heyrnartólin sem yndislegu börnin mín gáfu mér nýlega í afmælisgjöf. Svo falleg hugsun þar að baki því þau vildu að ég gæti hlustað á podköst og tónlist í gönguferðum mínum. Ferðinni var heitið inn í Búrfellsgjá sem er nýr heimur sem nýlega opnaðist fyrir mér. Þvílík dýrð að ganga þarna. Mér líður eins og ég sé að ganga inn í nýja veröld þegar ég kem þangað. Er vinkonu minni sem dró mig þarna í göngu í vor, eilíflega þakklát fyrir að hafa kynnt mig fyrir þessari paradís.


Á meðan ég þrammaði inn í paradísina og upplifði fallegu haustlitadýrðina, hlustaði ég á podkastið hans Sölva Tryggva og viðmælandinn var einn af mínum uppáhalds, Ólafur Darri. Ég veit ekki hvernig ég á að skilgreina hann í huga mínum. Uppáhaldsleikari. Ó já ekki spurning. Hann er frábær leikari á því leikur enginn vafi. En hann er svo mikilu meira en það. Mér finnst hann frábær lífskúnstner sem ég er stöðugt að læra af og því reyni ég að lesa og hlusta á viðtöl við hann þegar færi gefst. Þetta viðtal við hann snart mig á svo margan hátt og fékk mig til að leiða hugann að hlutum sem eru mér afar mikilvægir. Einlægni og manngæska skín í gegnum hans frábæra persónuleika. Og í þessu viðtali koma svo vel fram hvernig við lærum og höldum áfram þegar okkur líður eins og við höfum gert okkar besta en það var ekki nóg.

Þótt að orðin hans og spjallið hafi einskorðast við leikhúsið og lífið hans sem listamanns, þá gat ég í það minnsta yfirfært þetta á allt annað í lífinu eins og samskipti við okkar nánustu, nám, vinnu og okkur sem einstaklinga í þessu samfélagi sem við myndum öll saman.

Ég held að við sem manneskjur höfum það ríkjandi í eðli okkar að vilja gera hlutina vel. Og oftast erum við að reyna okkar besta í öllum þeim viðfangsefnum sem við erum að fást við. Það fer eftir því hvað okkur langar hlutina mikið, hvar metnaðurinn liggur, hvernig okkur líður og fleiri þættir ráða því hversu mikið við í raun leggjum á okkur í þeirri vegferð. En ég veit fyrir mitt leyti að ég hef fengist við hluti og hugsað með mér, ég gerði mitt besta, en undir niðri veit ég að það var ekki alveg satt. Ég hefði getað betur. Og hef hlutirnir ganga ekki upp, get ég orðið svekkt, en litla röddin innst inni, spyr; Varstu örygglega að gera þitt besta, og ég veit að svarið er nei. Þetta eru ótal mörg tilfelli.

En svo eru það skiptin þegar maður virkilega leggur sig allan fram, gerir allt sem maður mögulega getur og gott betur, og veit innst inni að maður gat ekki gert betur, þá er oft svo ótrúlega sárt þegar hlutirnir ganga ekki upp. Maður upplifir höfnunartilfinninguna. Þá taka niðurrifs hugsanirnar við og brjóta mann niður og þá kviknar þessi lúsers tilfinning. En þarna þegar ég var að hlusta á Ólaf Darra ræða um að stundum er ekki nóg að þú sem einstaklingur leggir þig fram og gerir allt óaðfinnanlega í hlutverkinu. Það er ekkert ávísun á að bíómyndin verði vinsæl og slái í gegn þótt allir leggi sig 100% fram. Stundum passa púslin saman og stundum ekki. Lærdómurinn sem ég tók út úr viðtalinu var að stundum er þitt besta ekki nóg sama hvað þú hefur lagt mikið á þig en það má samt ekki brjóta þig niður. Þú mátt ekki líta á það sem tap heldur lærdóm.


Þessi orð hans fengu mig til að hugsa um að þótt að við sem einstaklingar leggjum okkur fram við ákveðið verkefni eða í ákveðnum samskiptum, og viljum svo breyta hlutunum, þá er ekkert víst að það takist, þrátt fyrir okkar góða ásetning og við séum búin að reyna bókstaflega allt. Og þegar það gerist, og af því þetta gerist svo oft í lífinu er svo mikilvægt að ná að horfa á stóru myndina. Ekki bara út frá þér sem einstaklingi heldur alla heildarmyndina. Því ef maður nær að horfa á þetta þannig, verða ósigarnir ekki eins persónulegir.

Við þekkjum það í samböndum að stundum líður þér eins og þú sért búin að reyna allt til að laga það og veist það í hjartanu. Sambandið gengur ekki upp, og þá hellist yfir þig tilfinningin að þú sért gallagripur og getir ekki fundið út úr hlutunum. Það er svo ósanngjörn sjálfgagnrýni. Það er alveg sama við hvað þú ert að fást í heiminum. Þín afstaða, það sem þú leggur á þig, sama hversu mikið það er, ræður ekki eitt niðurstöðunni. Það eru alltaf aðrir þættir sem hafa áhrif og það er svo oft sem við gleymum að taka þá með í reikninginn. Við erum alltaf hluti af stærra mengi.

Þú getur verið að gera þitt besta, og sá sem þú ert að vinna á móti líka, en ykkar besta er einfaldlega ekki nóg. Púslin passa ekki saman. Og í eintaka tilfellum þegar allir leggja sig svo mikið fram, og öll púslin ná að púslast saman náum við þessari sigurtilfinningu. Það getur til dæmis verið að bíómyndin slái í gegn, nýtt samband, betri samskipti við tiltekinn einstakling, viðkurkenning á tilteknu verkefni og svo margt annað.

Ég tók stóra ákvörðun ekki fyrir löngu síðan og í því ferli hugsaði ég mikið um það hvenær ég væri búin að gera mitt allra besta. Ég var búin að leggja mig eins mikið fram og ég mögulega gat í ákveðnu verkefni, og í raun ganga mjög nærri sjálfum mér til að láta það ganga upp. Ég vissi að ég gat sagt með góðri samvisku, bæði við sjálfa mig og aðra, að ég gerði allt sem ég gat til að láta þetta verkefni heppnast. En ég fékk þau skilaboð frá öðrum í kringum þetta verkefni að þetta væri ekki nógu gott og það ætti að vinna það öðruvísi. Fyrir mér var um tvennt að velja. Að reyna að vinna verkefnið öðruvísi og eins og þeir sem ég vann á móti í verkefninu og það væri kannski ekki eins og mín hugsjón stóð fyrir. Eða standa með sjálfri mér og minni sannfæringu og hætta að vinna í því og ég valdi það. Ég geng sátt og stolt frá þessu verkefni. Ég veit að ég lagði hjartað mitt og ótrúlega mikinn tíma og orku í það. Ég er mjög sátt við mína ákvörðun af því að ég veit innst inni að ég stóð mig frábærlega, gerði allt sem ég mögulega gat til að sinna þessu verkefni og hefði ekki getað gert það betur út frá þeim forsendum sem ég hafði þegar ég var að vinna það. Púslið gekk bara ekki upp.

En svona er lífið. Við erum endalaust í þessum dansi að gefa og þiggja, læra og kenna með því sem við erum að fást við í lífinu. Stundum áttum við okkur á því í hvaða sporum við erum, og hvort við séum að læra eða kenna, en stundum miklu seinna. Og það má. Það má alltaf horfa aftur til fortíðarinnar og hugsa til þess sem við lærðum, en við þurfum að passa okkur að dvelja ekki þar, því þá komumst við ekkert áfram. Því þetta líf snýst um að læra af hlutunum en samt að halda áfram. Það er alltaf sætara að upplifa sigrana, en eins og við öll vitum, þá vitum við að sigurtilfinning er svo sjúklega sæt og góð af því við höfum svo oft upplifað hina hliðina. Og það er einmitt þessar frábæra sigurtilfinning sem drífur okkur áfram í að halda áfram að gera betur, því þegar öll púslin passa rétt saman og allt gengur upp, þá gerast töfrar. Njótum þeirra.

ree

 
 
 

Comments


©2020 by Lukkan made with Wix.com

bottom of page