Sagan á bak við hamingjuferðalagið
- Margrét
- Jan 26, 2020
- 14 min read

Ég held að innst inni séum við mörg í leit að hamingju í þessu ferðalagi um lífsins veg, hvort sem það sé markvisst eða ómarkvisst . Það er hins vegar mjög misjafnt hvernig við skilgreinum þessa eftirsóttu hamingju og hvort okkur tekst að fanga hana að okkar mati. Og oftar en ekki áttum við okkur ekki á henni fyrr en hún er kannski runnin okkur úr greipum. Það eru svo margir sem halda að þeir verði hamingjusamir þegar barnið fæðist, prófgráðan eða starfið komið í höfn, við eignumst stærra hús, flottari bíll, nýtt fellihýsi eða þegar við förum í geggjuðu skíðaferðina. Að þessir efnislegu og þjóðfélagslegu statushlutir færi okkur hamingjuna. Máltakið um að peningar færi manni ekki hamingjuna er þekkt, en öll vitum við að blessaðar fjárhagsáhyggjurnar eru nú kannski ekki hamingjuaukandi en ég er þeirrar trúar að hvorki peningar né þjóðfélagsstaða færi okkur hamingjuna. Hún þarf alltaf að koma innan frá.
Ég var á mínum núllpunkti í lífinu, sveitt inn í bílskúr að tæma hann fyrir flutninga og stóð á miklum krossgötum eins og gerist almennt í kjölfar hjónaskilnaðar, þegar mér varð litið ofan í pappakassa sem var að fara á haugana. Þarna glitti í pappír sem vakti forvitni mína. Þetta var pappírsbunki frá því ég var skiptinemi í Bandaríkjunum fyrir nærri 30 árum og það var afar áhugavert að fara í gegnum hann. En það sem fékk mig til að staldra við og þurrka tárin, sem virtust framleiðast í ómældu magni á þessum tímapunkti, var kveðjubréf frá einum fyrrum nemenda (8 ára) sem ég fékk að vera með sem aðstoðarkennari á hverjum degi allt þetta ár. Um leið og ég las yfir það rifjaðist upp með mér síðasta kennslustundin þar sem fyrrum nemendur mínir máttu spyrja mig ýmissa spurninga og ég svaraði. Kveðjugjöfin var fallegt kort og bréf með svörunum mínum. Í þessu bréfi stóð; Maggas goal in life is to be happy. Og um leið og ég las þetta kort helltust yfir mig allar þessar góðu minningar og mikla gleði sem ég upplifði á þessu ári. Og ekki síst þessi óstjórnlega hamingjutilfinningin sem einkenndi þetta ár.
Þar sem ég stóð þarna með kassann í höndunum, útgrátin og ómöguleg, varð mér ljóst að 17 ára krakkatrippi sem hafði átt ár lífsins í Ameríku og upplifað svo marga góða sigra og farið svo langt út fyrir þægindarammann, var greinilega komin lengra í markmiðasetningu um hvað í lífinu skipti hana mestu máli og hvað hún vildi en þessa útgrátna óhamingjusama kona á fimmtugsaldri. En hvað gerðist svo í millitíðinni? Hafði Magga unnið markvisst að því að vera hamingjusöm? Hafði hún beint athyglinni og unnið í sjálfri sér til að upplifa sig hamingjusama? Því var fljótsvarað neitandi á þessari stundu. Í millitíðinni hafði hún stofnað fjölskyldu, eignast þrjú dásamleg börn og lífið var alls konar og upp og niður eins og er bara almennt í lífinu og taldi sig eins hamingjusama og alla aðra. En forgangurinn var aldrei á hana sem manneskju og að henni liði vel. Hún notaði alla orkuna sína í að hugsa um að öðrum liði vel. Okkur líður öllum vel og höfum það fínt þegar við erum spurð hvað er að frétta. En að leita inn á við og spyrja sig krefjandi spurninga um hvað er í raun hamingjan og hvernig ætla ég sem manneskja að öðlast hana, þeim spurningum var algjörlega ósvarað.
Eins og oft vill verða á svona tímamótum taka sorg og skuggar við fyrst eftir skilnað og mín reynsla var engin undantekning. Í svona sex mánuði gat ég ekkert annað en vaknað, andað, borðað og sofnað. Hafði ekki orku í meira. Ég reyndi allt sem ég mögulega gat til að hífa mig upp úr holunni og komast aftur upp á jörðina og verða ég sjálf aftur. Eða eins og ég reiknaði með að ég yrði þegar þessu tímabili lyki. Og þegar orkan jókst og líðanin batnaði fór ég hugsa meira um hamingjukortið og þetta frábæra markmið sem ég setti mér 17 ára. Ef ekki núna að reyna að vinna í að láta það rætast, hvenær þá?
Það er ekki beint jákvætt og uppbyggjandi fyrir egóið eða hamingjuna að skilja. Það vita allir sem hafa gengið í gegnum þann vítiseld. Allar þessar erfiðu tilfinningar sorgar, söknuðar, sjálfsniðurrifs, að finnast maður misheppnaður gallagripur, því það eru jú þau skilaboð sem samfélagið sendir þér stanslaust. Það er einfaldlega ekki gert ráð fyrir að þú sért í sorgarferli þegar þú stendur í skilnaði. Bara harka af þér og halda áfram. Og fólk segir í alvörunni við mann nokkrum vikum eftir skilnað – ,,Þú finnur þér bara nýjan maka", rétt eins og maður kaupir sér nýjan bíl ef sá gamli bilar. Ónærgætni fólks í garð þeirra sem standa í skilnaði getur verið ólýsanlega sársaukafull og niðurlægjandi. Það er eins og það sé ekki samþykkt í samfélaginu að fólk sem er að ganga í gegnum skilnað sé í sorgarferli og þurfi sinn tíma til að syrgja. Á sama tíma er fólk sem gengur í gegnum skilnað að fara í gegnum hann á svo misjöfnum forsendum og getur tekið allt frá nokkrum vikum til margra ára að jafna sig og vinna sig í gegnum þessa lífsreynslu. Það verða allir að fá að faraí gegnum sitt ferli á sínum forsendum út frá sinni uppifum og reynslu.

En til baka í hamingjuleitina og hamingjuferðalagið. Eftir að hafa sótt námskeið í hugleiðslu, námskeið um hvernig maður á að fara að í lífinu eftir skilnað og fleiri gagnleg sjálfshjálparnámskeið auk þess að lesa allar bækur sem ég fann um sjálfshjálp og hvernig á að takast á við skilnað, ákvað ég að taka þetta skrefinu lengra og skráði mig í nám í markþjálfun. Ég taldi mig vita út á hvað námið gekk, en það fór fram úr mínum björtustu vonum. Að fara í þetta nám og skræla sjálfan sig inn að beini, er ein besta gjöf sem ég hef gefið sjálfri mér. Þarna á þessu námskeiði gat ég byrjað að byggja mig upp í áttina að þessu markmiði mínu að vera hamingjusöm. Það þýddi að ég þurfti að byrja á að gera rosalega margt upp við eina manneskju sem ég hafði alls ekki sinnt eða sýnt nægan kærleika og hlýju. Þess í stað hafði ég brotið hana niður aftur og aftur í öllum þessum erfiðleikum, gert brjálæðislegar óraunhæfar fullkomnunarkröfur til hennar og var alltaf tilbúin að tala niður í stað þess að hvetja áfram. Við þessa manneskjum varð ég að vingast, gera upp ótal hluti úr fortíðinni og semja við hana um fyrirgefningu og síðan að búa til nýja vináttu sem byggði á allt öðrum forsendum. Þessi manneskja var ég sjálf.
Síðan þá hefur þetta ferðalag staðið að vinna í því að vera hamingjusöm. Ég er búin að komast að því að það er enginn annar sem gerir mig hamingjusama en ég sjálf. Vildi svo óska þess að ég hefði verið búin að vinna meira í því og kannski fatta það þegar ég var 17 ára í hamingjumarkmiðasetningunni en sjálf eyddi ég alltof mörgum árum í að leita hamingjunnar utan frá, en ekki innan frá hjá sjálfri mér. Að sjálfsögðu getur annað fólk í lífi manns eins og maki, börn, vinir, fjölskylda og aukið á hamingjuna en uppsprettan þarf að vera hjá okkur sjálfum til opna fyrir þennan möguleika. Eflaust eigum við hvert og eitt okkar skilgreiningu á hvað er hamingja en í mínum huga er það hugarástand þar sem okkur líður vel, við erum i góðum tengslum við okkur sjálf og í jafnvægi, náum að vera í núinu og finnum fyrir gleði og vellíðunartilfinningu innra með okkur. Og getum upplifað svona hamingjustund við margvíslegar aðstæður.
Hamingjuvegferðin tekur engan endi í mínum huga og ég muna vera á henni það sem eftir er ævinnar. Mig langar samt að deila þeim lærdómi sem ég náð á þessu ferðalagi mínu frá því ég fór markvisst að vinna í markmiðinu mínu að vera hamingjusöm:

1. Það er ákvörðun að vera hamingjusamur. Maður þarf virkilega að ákveða það á hverjum morgni þegar maður vaknar að ætla að vera hamingjusamur í dag. Þegar dagurinn verður erfiður og fátt til að gleðjast yfir, þarf stundum virkilega að finna góðar ástæður til að fá hamingjuna aftur í hjartað. Ég er ekki að segja að það sé alltaf auðvelt og maður á alls ekki að vera að feika einhverjar tilfinningar og brosa fölsku brosi til að láta líta út eins og maður sé hamingjusamur. Það hjálpar ekki neinum held ég. Það sem ég á við er að lífið færir okkur allavega verkefni, miserfið, en það hvernig við tæklum þau eru alltaf hugarfarið okkar. Maður getur ákveðið að vera hamingjusamur en á sama tíma verið að fást við erfiða hluti í lífinu eða verið undir miklu mótlæti. Og okkur getur alveg liðið illa tímabundið þótt við séum búin að taka þá ákvörðun að einblína á að vera hamingjusöm. Ég held að ef maður sé búin að taka þessa ákvörðun um hamingjuna, þá sé auðveldara að fást við erfiðleikana eða það er amk mín reynsla. Frá því ég hóf þessa vegferð hafa erfiðleikar og áföll dunið yfir mig sem ég hef þurft að vinna úr eins og aðrir í sömu stöðu. En ég held að þessi ákvörðun mín um að vera hamingjusöm hafi hjálpað mér að yfirstíga þær hindranir fyrr og gefið mér frekari hvatningu til að vinna í sjálfri mér til að endurheimta gleðina og hamingjuna sem ég vill að einkenni mig og mitt líf.
2. Að geta fundið til þakklætis. Og nátengt þessu er þakklætið og nauðsyn þess er að geta fundið til þakklætis. Þetta hangir ótrúlega þétt saman að mínu mati. Og talandi um að draga lærdóminn af erfiðleikum og áföllununum þá hef ég lært það að smáu hlutirnir í lífinu geta gert mann glaðan og fyllt mann hamingju ef maður finnur til þakklætis. Það er svo ótal margt sem maður getur verið þakklátur fyrir á hverjum degi. Að vakna að morgni heilbrigður er eitthvað sem ég fyllist þakklæti yfir á hverjum degi. Að fá skítuga steina í gjöf frá barninu þínu, bros í biðröðinni í Bónus frá ókunnugum eða hrós frá samstarfsfélaga getur fyllt hjartað þakklæti og aukið á hamingjuvogina. Sjálf reyni ég a hverju kvöldi áður en ég fer að sofa að hugsa um allt sem fyllir mig þakklæti á þeim degi. Þannig æfi ég mig líka í þakkæti og koma þakklætishugsunum að hjá mér. Þetta er æfing eins og svo margt annað í lífinu.
3. Að vera einlægur við sjálfan sig og aðra. Fyrir mér var þetta mikil áskorun því þegar fór í markþjálfunarnámið var þetta einn af þeim þáttum sem ég fann að ég þurfti virkilega að vinna með. Með einlægni þarf maður að fella grímuna. Það krefst hugrekkis að vera einlægur og ekki síst gagnvart sjálfum sér og sínum tilfinningum. Um leið og maður getur verið einlægur við sjálfan sig, verður auðveldara að vera einlægur gagnvart öðrum. Ég hef alltaf verið meðvirka týpan og samhliða öllu þessa ferðalagi hef ég unnið mikið í meðvirkninni. Tilhugsunin um að vera alveg einlæg og segja upphátt hvað væri best fyrir mig, hvað mig langaði o.s.frv. var mjög erfið, allt að því sársaukafull, því fyrir mér var eðlilegast að spá í hvað aðrir kröfðust af mér, hvað ég héldi að ég ætti að gera, segja því mér var svo í mun að særa ekki aðra. Ég velti því aldrei fyrir mér að oft á tíðum særði ég sjálfan mig mest. Það var því risastórt skref að fara að æfa sig í einlægni og setjast niður og taka einlægt samtal við aðra, því þá var ég búin að hleypa fólki svo miklu nær mér. Það var mikið frelsi og veitti mér mikla vellíðan að geta leyft mér að vera einlæg. Ég fór að segja nei við fólk þegar það var að biðja mig um eitthvað sem hentaði mér ekki. Einlægnin fólst í að setja mínar þarfir efst, og ef ég er beðin um eitthvað sem hentar ekki mínum þörfum, þá segi ég á einlægan hátt nei. Stundum með skýringu, og stundum ekki, fer eftir aðstæðum. En í fyrsta skipti sem ég sagði markvisst nei á þennan hátt, fékk ég líkamleg einkenni af vanlíðan, svo erfitt var þetta mér að standa með sjálfri mér og segja hug minn. Áður fyrr hefði ég kannski sagt já, en meint nei, og liðið samt illa yfir því af því að þá var ég ekki að standa með sjálfri mér. Þannig að einlægnin og standa með sjálfum sér er algjörlega eitt af þeim atriðum sem hefur hjálpað mér að verða hamingjusamari.
Og annar mikilvægur þáttur tengdur einlægninni og þegar maður fer að æfa sig í henni, þá komst ég að því að þótt að þú sért einlægur í tilfinningum þínum er ekkert sjálfgefið að aðrir sé einlægir á móti við þig. Mitt ráð er að þú sért einlægur í þínu í sambandi við aðra manneskju, hvort heldur sem maki, vinur, vinnufélagi eða aðrir sem þú ert í samskiptum við og þú upplifir að viðkomandi komi ekki fram við þig af sömu einlægni, ekki láta það brjóta þig niður eða hætta þinni einlægni. Sjálf hef ég reynslu af þessu. Ég var algjörlega einlæg og opin gagnvart einstaklingi sem ég taldi mér náin og lagði öll spilin á borðin og var virkilega að vanda mig við að vera einlæg eins einlæg og berskjölduð og hægt var. En þegar ég upplifði að viðkomandi nálgaðist hlutina ekki af sömu einlægni var í feluleik og fjarlægð, þá var fyrsta tilfinningin mín að einlægni borgaði sig ekki því hún særði mann svo mikið. Ég hafði felt mína grímu og hleypt viðkomandi að mér. Um leið og þú ert einlægur, ertu berskjaldaðri og þar af leiðandi líka auðsærðari, En þegar ég fór að hugsa þetta betur, þá leið mér vel með að vera einlæg og heiðarleg. Það var svo viðkomandi aðila að eiga við sjálfan sig um sína hegðun og líta í eigin barm þegar kemur að einlægni og heiðarleika. En eftir stendur að ég kann svo miklu betur að meta þegar fólk er einlægt og kemur hreint fram og nærvera slíks fólks nærir mig og lætur mér líða betur.
4. Að vera í núinu og njóta stundarinnar. Þetta er svo mikilvægt og sjálf hef ég gert alltof lítið af þessu í fortíðinni. Mér finnst ég stundum hafi farið á mis við svo mikið af því ég gleymdi að njóta stundarinnar á meðan það varði af því að ég veit að það var hamingjustund en ég gleymdi að njóta hennar. Ég upplifi þetta oft þegar ég er að skoða myndaalbúm eða þegar verið er að ræða einhvern viðburð eða minningu. Þá hugsa ég alveg vá hvað þetta var gaman og hvað mér leið vel þarna, en ég minnist þessi ekki að hafa hugsað þetta á þeirri stundu núna ætla ég njóta þessara stundar. Ég var alltaf komin á næsta stað í hugsuninni. Ég er mikið að æfa mig í því núna og finn hvað ég á orðið auðveldara að fá alveg hita í hjartað af hamingju af sáraeinföldum hlutum þegar ég leyfi mér að njóta og tileinka mér slíka hugsun. Að hafa börnin mín og tengdabörn í mat og allir tala hver ofan í annan er gott dæmi um slíka stund sem ég nýt svo einlægt. Að hitta góða vini og eiga stund með þeim og í spjalli og nánd er annað gott dæmi um stundir sem gefa manni svo margfalt meira ef maður nær að vera í núinu, en ekki upptekin að tékka á símanum eða farinn að plana eitthvað fram í tímann. Ég tók svona markvissa núvitundaræfingu í jólafrínu þegar ég fór til Kanarí með sonum mínum og tengdadóttur og búin að hlakka til ferðarinnar frá því síðastliðið sumar. Þá voru svona móment þar sem ég fann hreinlega hamingjustraumana hríslast um mig því mér leið svo vel og var svo mikið að njóta hverrar stundar. Ég fann líka hvað gleði mín var einæg og þakklætið gerði stundina einstaka og eftirminnilega. Einmitt af því ég var svo mikið að njóta hennar. Ég þarf ekki ljósmyndir til að minna mig á neitt í þessari ferð. Það er allt grafið ofan í hjartað og minningar dreg reglulega fram til að minna mig á ríkidæmi mitt og æfa mig í þakkætinu.
5. Að fara út fyrir þægindarammann. Við getum svo miklu meira en við höldum. Það er alltaf hausinn á okkur, efasemdaraddirnar, sem við leyfum alltof oft að stjórna ferðinni. Þegar við förum út fyrir þægindarammann þá upplifum þessa geggjuðu sigurtilfinningu. Þegar við finnum að við sigrumst á óttanum og kvíðanum, þá líður okkur svo vel og hamingjustigunum fjölgar. Sjálf á ég ekki auðvelt með að standa fyrir framan hóp af fólki og tala, en starfs míns vegna þarf ég oft að gera það. Hvert skipti sem ég held ræðu eða stend upp og flyt fyrirlestur er ég algjörlega að fara út fyrir þægindarammann minn. En ég læt það ekki stoppa mig þegar ég veit að ég þarf að gera slíkt þá undirbý ég mig eins vel og ég get og sem betur fer 7,9.13 virkar það vel fyrir mig. En alltaf þegar ég er búin og allir áheyrendur farnir eða ég farin út af svæðinu fæ ég svona smá spennufall, og pínu sigurtilfinningu, yfir að hafa ögrað mér og sigrast á baráttunni við þægindarammann. Og ef að þetta myndi mistakast eða mér liði að þetta hefði ekki gengið eins og það ætti að ganga, þá er ég komin á þann stað að geta litið á það sem lærdóm og endurgjöf sem ég gæti nýtt fyrir næsta fyrirlestur. Það er hægt að æfa sig að fara út fyrir þægindarammann með ýmsum hætti og hver og einn verður að finna sína leið til að tækla það hvernig best er að stækka þægindahringinn sinn.
En af hverju er ég að deila allri þessari hamingjuleit minni hér á þessari síðu? Jú af því eitt af því sem skapar hamingju er að framkvæma drauma og ná settum markmiðum. Það var eitt af því sem ég lærði í markþjálfunarnáminu var mikilvægi þess að setja sér markmið ef maður vill láta draumana rætast. Ég hef mjög lengi gengið með þann draum í maganum að setja upp vefsíðu/blogg síðu þar sem ég gæti fjallað um nokkur af mínum helstu áhugamálum. Og rétt eins og með iðnaðarmanninn sem sinnir síst viðhaldi á eigin heimili, reyndast mér mjög erfitt að setja upp slíka síðu. Manneskjan sem hefur ekki hugsað um annað en vefi, vefhönnun og innihald vefa síðastliðin 20 ár fann ekki tímann fyrir það eða hvernig hún ætti að vera í raun og veru. Gæti verið að ég sé búin að vera að ofhugsa þetta aðeins en núna var stundin runnin upp. Það er ekki nóg að setja upp vef. Hann þarf að hafa markmið og markhóp og þar strandaði ég yfirleitt þegar ég var komin á hugarflug.
Fyrir rosalega mörgum árum eða í kringum aldarmótin starfaði ég sem blaðamaður og hafði unun af því að skrifa. Fór meira að segja í meistaranám til Danmörku til að læra að skrifa fyrir vefinn og endaði í allt annarri vefþeytivindu. Þetta var á þeim tíma sem fólk spurði mig hvort það væri virkilega eitthvað vit í að fara að læra eitthvað sem tengdist þessu interneti, því það væri bara bóla. Eftir að ég hafði dottið inn í vefheiminn frá annarri hlið varð ekki aftur snúið og skrifin minnkuðu en ég hef sakna þess oft í gegnum tíðina. Það er eitthvað sem leysist úr læðingi við skriftir og veitir mér hugarró og ég fæ útrás fyrir sköpunarþörfina. Hef reyndar oft sagt að ég eigi eflaust eftir að snúa mér einhvern tímann aftur að skrifum og kannski er bara komið að því núna.

Auk þess á ég fleiri áhugamál og eitt af því er ljósmyndun. Ég hef mjög gaman af því að taka myndir og sérstaklega náttúruljósmyndir og á þær í þúsundatali. Það var aldrei inn í myndinni að setja upp eingöngu ljósmyndavef. Allt frá hamingjuárunum í Ameríkunni hef ég haft mikla ánægju af svona orðatilvitnunum eða quotes eins og margir þekkja. Í skólanum mínum voru þau gjarnan hengd upp á veggi, skrifuð á töfluna, fólk var með alls konar tilvitnanir á bílunum og það voru heilu verslanirnar sem seldu alls konar tilvitanir í römmum, á seglum, dagatölum og svo mætti lengi telja. Ég heillaðist af þessu og ef allar götur síðan verið mikill tilvitnananörd, löngu áður en það komst í tísku á Íslandi að hafa slík skilti, púða eða tilvitnanir inni á heimilum landsmanna. Þessar tilvitnanir mínr hafa verið uppspretta mikillar gleði og grínstunda hjá börnum mínum og þau geta gert endalaust grín að mér fyrir þessa áráttu sem þau deila alls ekki með mér.
Svo var það bara einn daginn sem þetta allt tengdist saman í hausnum á mér. Vefsíðan myndi innihalda tilvitnanir sem ég setti á ljósmyndirnar mínar. Vefsíðan myndi innihalda pistla um hamingjuferðalagið og tilvitnanir tengdum því og þar fengið ég útrás og gæti komið einhverjum af þeim hundruðum pistla sem ég hef þegar skrifað í hausunum á mér en ekki komist á blað. Og þar sem vefurinn er að verða pínu gamaldags fyrirbæri, eins og unga fólkið segir, miðill fyrir svona miðaldra fólk eins og mig, ákvað ég að setja líka að setja upp Instagram reikning þar sem eingöngu væru tilvitnanir. Þannig gæti ég tengt þetta allt saman. Ef þið viljið skoða Instagram reikninginn þá finnið þið hann undir mvhappiness. Markmiðið fyrir árið 2020 var að setja inn nýja tilvitnun nokkrum sinnum í viku á Instagram reikninginn og reglulega pistla á þessa vefsíðu. Síðan gerðist það þegar verkefnið var langt komið í byrjun desember að ég veiktist og varð að leggja þetta frá mér og ákvað að taka það upp þegar tími gæfist til þótt það yrði komið fram í janúar. Þannig að við ykkur sem eruð enn að lesa segi ég, velkomin með mér í hamingjuferðalagið 2020 með smá seinkunþar sem þessi vefur fer í loftið seint í janúar en ekki um áramótin eins og til stóð. Ég mun í það minnsta gera mitt besta í að koma markmiðum mínum í framkvæmd það sem eftir lifir árs og vonandi munu ferðasögur mínar um hamingjuferðalagið geta hjálpað einhverjum sem eru í svipuðum ferðalagahugleiðingum eða ef til vill veitt ykkur innblástur í annars konar ferðalög.
Látum ferðalagið hefjast hér og nú.



Comments