top of page
Search

Góðir vinir eru hluti af hamingjunni

,,Því segi ég það, ef þú átt vin í raun, fyrir þína hönd, Guði sé laun."

Jóhann G. Jóhannsson


Það er magnað hversu dýrmætt það er í lífinu að eiga að góða vini og dýrmæta vináttu. Fyrir mér er það ein af undirstöðum hamingjunnar. Og þegar ég tala um vini og vináttu þá er ég að meina vináttu í mjög breiðri merkingu. Okkar bestu vinir geta verið maki, börn, foreldrar, systkini, eða fólk tengt okkur fjölskylduböndum, milli systkinabarna og svo mætti lengi telja og svo auðvitað allir vinirnir sem við eignumst utan fjölskyldunnar. Það er svo misjafnt og virkilega gaman að velta því fyrir sér hvernig við myndum þessi vinabönd í gegnum lífið og á hverju vinátta tveggja einstaklinga byggir. Stundum smellur fólk saman og verða heimsins bestu vinir frá fyrsta degi og út lífið. Svo getum við átt góða vini sem tekur okkur langan tíma að kynnast og tengjast vináttuböndum. Sum vinapör virka eins og jing og jang og eiga ekkert sameinlegt, á meðan aðrir vinir eru keimlíkir og eiga margt sameiginlegt.


Við eigum okkar barnæskuvini og stundum endist sú vinátta í gegnum lífið en stundum endar hún við lok grunnskólagöngu eða þegar við skiptum um skóla. Aðrir eignast sína bestu vini á menntaskólaárum eða í framhaldsnámi. Ég las einhvern tímann grein um að við eignumst yfirleitt flestu og nánustu vinina í gegnum skólagöngu á unglingsárum og í kringum tvítugt. Samkvæmt þessari grein eru minni líkur á að við myndum vináttubönd og eignumst nýja vini að skólagöngu lokinni. Sambandið verður oft meira svona kunningjasamband, eins og þegar við kynnumst fólki í gegnum vinnuna.

Ég get ekki alveg tekið undir þessa kenningu. Ég eignaðist mikið af góðum vinum á unglingsárum og menntaskólaárum en margir að þeim sem ég skilgreini sem mína bestu vini í dag hef ég einmitt kynnst eftir að formlegri skólagöngu lauk. Mörgum í gegnum vinnuna, öðrum í gegnum félagsstarf og svo líka í gegnum börnin mín. Ég veit líka dæmi þess að margir hafi eignast sína bestu vini í gegnum mömmuhóp, gönguhópa og á alls kyns námskeiðum sem fólk fer á og nær að tengjast vel.


Eitt fallegasta form vináttu sem ég verð áskynja er vináttan á milli ömmu/afa og barnabarna sem myndasta oft ef mikil samskipti eru á milli þessara kynslóða. Það er eitthvað alveg sérstakt við slíka vináttu. Hún er einhvern veginn á allt öðru stigi en á milli foreldra og barna. Ég var sjálf svo heppin að hafa átt tvær einstakar ömmur (báðir afar mínir dóu töluvert á undan ömmum mínum) og átti við þær báðar afar gott vináttusamband eins ólíkar og þær voru. Önnur var mikil valkyrja, blés í mig eldmóð og sjálfstæði. Hún var frábær fyrirmynd í því að standa með sjálfri mér, að þora að feta óþekktar brautir og láta hjartað ráða för. Á meðan hin lét mér alltaf líða eins og hún hefði fæðist í þennan heim til að vera til staðar fyrir mig og umvefja mig ást, hlýju og öryggi. Kærleikurinn hennar gagnvart mér var svo skilyrðislaust og fallegur. Báðar höfðu þær svo gríðarlega mikil áhrif á mig mér og voru frábærar vinkonur mínar hvor á sinn hátt. Ég áttaði mig ekki að fullu á hversu einstaka vináttu ég átti í ömmum mínum fyrr en eftir að ég missti þær með stuttu millibili en þá var ég komin hátt á fertugsaldur. Þá fyrst sá ég hvernig mynstrið hafði breyst úr því að vera barnabarn/ömmutengsl yfir í þessa kærleiksríku vináttu. Það skarð verður aldrei fyllt og ég sé það líka núna hversu mikil forréttindi það eru að hafa alist svona mikið upp með ömmum mínum og fengið að eiga þær að sem vinkonur í svona langan tíma.


Sjálfri finnst mér ég óskaplega rík að vinum í lífinu mínu. Það sem ég hef hins vegar fundið með hækkandi aldri og auknum þroska, er mat mitt á gildum vina minna og regluleg endurskoðun á hvaða þættir í fari fólks er það sem ég kann best og mest að meta og hvort að við eigum sameiginleg gildi í lífinu. Við ákveðnar aðstæður í lífi okkar skilja leiðir og þá kemur svo oft í ljós hverjir eru raunverulegir vinir. Það eru einmitt þeir sem halda sambandi við þig og sýna vináttu þótt að aðstæður sé breyttar eins og t. í kjölfar erfiðleika, sambandsslita eða breyttra að aðstæðna í þínu lífi. Stundum þroskast líka vinir í sundur, rétt eins og pör, og þá skilja leiðir þar sem það er engin sameiginleg forsenda fyrir vináttunni. Margir hafa líka eflaust upplifað að vera í miklum samskiptum við tiltekinn hóp fólks þegar það býr t.d. á stúdentagörðum erlendis, í heimavistaskóla eða við aðrar aðstæður. Síðan þegar viðkomandi flytur annað, þá eða aðstæður breytast er kannski ekkert sameiginlegt nema þessi búseta og nálægðin í ákveðinn tíma.


Ef ég set fram þá þætti sem ég kann best að meta í mínum vinum þá þá eru það í raun ótrúlega margir þættir enda nokkrir útvaldir einstaklingar sem er um að ræða en samt ólíkar manneskjur en saman mynda klettabelti sem umvefur mig. Ég er svo heppin að eiga vini sem ég get heyrt í þegar ég er stödd í vanda, ef mér líður illa og ef ég þarf einhvern til að gleðjast með. Og mér finnst ég ótrúlega rík af því ég á vini sem ég veit að ég get hringt í hvenær sem er sólarhringsins væri ég í bráðum vanda stödd. Ég á vini sem get fengið fullkomna speglun frá, sem ég veit að gefa mér heiðarlega endurgjöf. Ég á líka vini sem ég get sagt allt við og þekkja mig berskjaldaða, eru fordómalausir og dæma mig aldrei, sama hvert umræðuefnið er eða við hvað ég er að fást. Mér þykir líka ótrúlega vænt um vinina sem peppa mig upp þegar þeir heyra á mér að ég sé ekki vel stemmd, hrósa mér þegar þeim finnst ég eigi það skilið og gefa mér jákvæð skilaboð og endurgjöf í samskiptum. Svo eru það vinirnir sem eru svo mikið gleðivítamín í sálina að mér finnst ég fá vængi eftir að ég búin að vera í kringum þá og því þeir smita mig af svo af hugmyndum, sköpunargleði og jákvæðri orku.

Og ekki má gleyma vinunum sem ég heyri ekki svo vikum skipti eða mánuðum skiptir en svo hittumst þá er eins og við hefðum talað saman daginn áður og allt óbreytt. Ég er mjög rík að eiga vini sem sýna umhyggjusemi sína með því að lýsa yfir áhyggjum af mér þegar ég er að drekkja mér í vinnu og verkefnum og gleymi að setja heilsu mína í forgang. Og svo er ég svo heppin að eiga vini sem senda mér skilaboð ef þeir hafa ekki heyrt í mér í einhvern tíma, bara til að tékka á mér. Í mínum huga eru allir þessir vinir mínir og vinátta hvers og eins þeirra eins og falleg og góð perlufesti sem umvefur mig ást og kærleik og er afar mikilvægur hluti af hamingjunni.


ree


 
 
 

Comments


©2020 by Lukkan made with Wix.com

bottom of page