top of page
Search

Hamingjan í ófullkomna heiminum

Ég man ekki hvenær ég spáði í merkingu orðsins fullkomnun fyrst, en í rosalega mörg ár var ég að streða við að verða fullkomin á öllum sviðum. Fullkomin dóttir, fullkomin eiginkona, fullkomin mamma, fullkomin starfsmaður. Ég var minn harðasti gagnrýnandi og fannst ég aldrei gera neitt nógu vel ef það tókst ekki fullkomlega á mínum skala. Samkvæmt tölfræðinni er ég líklega tilvalin staðamynd þess að leitast við þessa fullkomnun ef marka má rannsóknir. Kona, elsta barn og bullandi meðvirk. Varla til heppilegra eintak í svoleiðis pakka. Ég eyddi því miður alltof mörgum árum og áhyggjum í að reyna að verða fullkomið eintak á öllum sviðum. Og nota bane þetta var allt fyrir tíma samfélagsmiðlana.

Ég skil hreinilega ekki hvernig ungt fólk með netta fullkomnunaráráttu í dag ná að halda sjó og geðheilsu. Allt þarf að vera svo fullkomið og sjást á samfélagsmiðlum. Þú þarft að eiga fullkomna heimilið, fullkomna barnið, fullkomnu hrærivélina og vera með fullkomna líkamann svo fátt eitt sé nefnt. Það segir sig sjálft að þetta reikningsdæmi gengur ekki upp, það mun eitthvað bresta. Ég þakka Guði fyrir það á hverjum degi að hafa náð að upplifa þá tíma að halda barnaafmæli á þeim tíma þegar það var boðið var upp á súkkulaðiköku með smartís, gos með röri, og börnin fóru í pakkaleik að og léku sér í feluleik með súkkulaðikökuna út á kinn. Ég fer næstum í kvíðakast þegar ég skoða myndirnar á samfélagsmiðlum af barnaafmælum í dag með skreyttar tertuhlaðborð úr 17 Sortir, veggskreytingar, pakkaborð í litaþema og börnin sitja stíf eins og dúkkur í sína fínasta pússi og þora ekki að hreyfa sig. Það er ekki við þessa ungu kynslóð að sakast að svona er komið. Mín kynslóð sem ól upp þessa samfélagsmiðlaóðu kynslóð og er fyrirmynd hennar er ekkert skárri í að lúkka fullkomlega út á við.

Ég las einmitt svo frábæran pistil í fyrra á Facebook frá mætri konu sem ég lít mikið upp til og er jafnaldra mín, þar sem hún var að benda á nákvæmlega þetta metings- og fullkomunaræði okkar kynslóðar. Og þessar gríðarlegu þarfar fyrir að vera „ofur“ í öllu. Ég held að þessi pistill hennar hafi verið samhljómur margra kvenna á okkar aldri, okkar sem erum komnar á þann stað að sjá að það er einhver skekkja í þessu en vitum ekki hvernig við eigum að koma orðum að því eða kannski að breyta þessu. Okkur nægir ekki að fara í gönguferðir – við þurfum að fara í ofur fjallgöngur á erfið fjöll. Okkur nægir ekki að hjóla um á venjulegu hjóli – við þurfum að vera á racer og taka þátt í Bláa Lónsþrautinni og pósta auðvitað öllu. Við getum ekki farið á venjulega sólarströnd eða bara piknik í Hvalfjörðinn – við þurfum að fara til Asíu í margra vikna ferðalag. Hvað er þetta annað en einhver þörf á að sýnast vera fullkomin þegar þá má aldrei vera í norminu og lifa bara þessu hversdagslega lífi? Það erum jú við sem eru fyrirmyndirnar.

Fyrir mér var það ákveðið aha - móment þegar ég fór að velta þessari fullkomunaráráttu fyrir mér og hvað veldur henni fyrir nokkrum árum. Þá komst ég ég að því að við getum átt okkar markmið og stefnt að einhverju án þess að það þurfi að vera fullkomið og gallalaust. Og það er langt best að við séum bara að bera okkur við okkur sjálf og hvert okkar persónulega markmið er. Verða besta útgáfan af okkur án alls samanburðar við aðra og annað. Við getum verið að gera fullt af góðum hlutum sem við megum og getum verið stolt af og þurfum ekki alltaf að vera að spá í þessa fullkomnun. Mér finnst gaman að baka alls konar brauðbakstur og tel mig ágætist bakara þótt ég kunni ekki að baka súrdeigsbrauð eða sé búin að mastera mig í kanilsnúðum ala Lindu Ben. Ég þarf ekki að láta einhvern annan eða samfélagið segja mér hvort að ég búi yfir bökunarhæfileikum eða gefi mér leyfi til að skilgreina hvað er að vera góður í bakstri. Ég held að við séum svo oft á tíðum miklu duglegri að tala okkur niður og segja að við getum ekki eitthvað af þvi að samkvæmt okkar mælikvarða vantar þessi stig í ,,fullkomnunina" eins og súrdeigsbrauðið eða kanilsnúðana hennar Lindu. Og ég held að það eigi við bæði kynin, þótt ég hafi á tilfinningunni að við konur séum oft duglegri í því en karlmennirnir. Við erum í það minnsta ansi mörg sem gætum æft okkur í hugsa tileinka okkur hugsunarháttinn henar Öldu Karenar ,,ég er nóg“ og hætta endalausa samanburðinum við aðra af því að það skiptir akkúrat engu máli hvað aðrir eru að gera eða hvar í skalanum þeir standa. Ég er ekki að segja að við eigum að hætta að vera metnaðargjörn eða stefna að ákveðnum persónulegum markmiðum. Það sem ég á við er að við getum alltaf stefnt hærra, aukið við færni okkar á einhverjum sviðum og haft metnað til að gera betur fyrir okkur sjálf en á sama tíma kastað þessari fullkomnunaráráttu á haf út.

Fyrr í vetur fyrir Covid samkomubann fór ég á mjög áhugaverðan hamingjutengdan viðburð sem bar yfirskriftina ,,Bara það besta“ þar sem ýmsir aðilar komu fram og ræddu hamingjuna frá ýmsum sjónarhornum. Ein þeirra sem steig á stokk og var ung kona sem hafði gengið gegnum mjög erfiða lífsreynslu. Þá reynslu að missa manninn sinn á eins sársaukafullan hátt og ég ímynda mér að hægt sé að missa maka. Mér fannst hún svo hugrökk og stór manneskja að geta komið fram og sagt frá þessu á svona einlægan og hispurslausan hátt, samt svo ung en með afar þroskaða sál. Það sem vakti hins vegar mestu athygli mína, og fannst svo aðdáunarvert í hennar fari, var sú ríkjandi hugsun að sækja í aðstoð til að gera betur og hafði alltaf verið löngu áður en áfallið reið yfir. Hún er mikil keppnismanneskja og æfir krossfit og var að lýsa því að hún sækir sér þjálfun í því sem hún vill verða betri í. Þegar hún fór að æfa box, fékk hún sér boxþjálfara til að verða betri sem dæmi. Og ef maður tileinkar sér þessa hugsun þá er það einmitt svo mikilvægt í lífinu að sækja sér aðstoð í því sem maður vill verða betri í, fyrir sig og á sínum forsendum. Það skiptir engu máli hvort það sé að verða listmálari, hlaupari eða súrdeigsbakari. Ef okkur langar að verða betri í einhverju þá er það styrkleikamerki að fá aðstoð í að vera betri einfaldlega af því að við getum aldrei masterað allt ein. Ef að við tökum lærdóminn frá þessari hugrökku konu þá er líka hægt að segja að með því að nota þessa hugsun hennar er hægt að heimfæra þetta upp á hvað sem er sem við erum að fást við. Ef okkur langar að öðlast meiri dýpt eða skilning á einhverju viðfangsefni, finnum við út hver skarar fram úr þar eða hefur mikla þekkingu og sækjum okkur hana. Við erum nefnilega sérfræðingarnir í okkur sjálfum og eigum ekkert að hika við að fá sérfræði aðstoð ef við viljum bæta okkur á einhverju sviði. Við getum nefnilega verið svo góð í hlutunum og bætt okkur endalaust þótt við séum ekki fullkomin.

Mér finnst foreldrahlutverkið eitt besta dæmið um þessa stöðuga bestun á einu mikilvægasta hlutverki lífsins. Horfumst í augu við blákalda staðreynd. Hið fullkomna foreldri er ekki til. Fyrir flest okkar er þetta samt eitt mikilvægasta hlutverk í lífi okkar og við reynum eftir bestu getu að standa okkur sem best í því. Sumir lesa sig til, aðrir fara á námskeið, og enn aðrir sækja visku eftir öðrum leiðum til að ná sem bestu árangri í hlutverkinu. Börnin okkar þroska okkur stöðugt í hlutverkinu bæði með orðum sínum og hegðun. Og því erum við alltaf að læra eitthvað nýtt í þessu hlutverki, alveg sama hvað við eigum mörg börn eða hversu gömul þau verða, við lærum stöðugt. Sumt af því sem við lærum í hlutverki er sársaukafullt og erfitt, annað fyllir okkur þakklæti, auðmýkt og gleði, en þegar upp er staðið er fáum við oft að upplifa litróf allra tilfinninga í gegnum það hlutverk og lærdómurinn mikilvægur þroski fyrir okkur sem manneskjur og hluti af hamingjuferðalaginu.

Ég er þeirrar skoðunar að því fyrr á æviskeiðinu sem við sættum okkur við að erum ekki, og verðum aldrei fullkomin, því betra. Þar með því tökum pressuna af okkur sjálfum og sætta okkar við að við erum frábærir einstaklingar að gera góða hluti í ófullkomleikanum. Það er nefninlega ófullkomleikinn sem gerir okkur mannleg. Meira að segja Víðir okkar Reynisson, sem við lítum á sem núverandi landsföður, sagði í upphafi Covid að þríeykið myndu gera mistök í þessu ferli. Að sjálfsögðu, af því að allir gera mistök en við erum bara misdugleg að viðurkenna þau. Víðir taldi sig hafa gert mistök í einhverri fyrirspurn og baðst afsökunar á eá næsta fundi á eftir. Ekki minnkaði traust almennings á honum, þvert á móti. Með þessu sýndi hann hversu frábær hann er í þessu hlutverki að leiða þjóðina í gegnum þessa erfiðu tíma, gerir það af mikilli auðmýkt og sýnir fram á að hann er mannlegur, rétt eins og aðrir.

Ég hef áður rætt um þá þætti sem ég tel að stuðli að blessaðri hamingjunni sem við erum öll að reyna að fanga. Þeir lykilþættir geta verið margvíslegir og persónubundnir en það er nokkuð ljóst að blessuðu fullkomnunaráráttan og allt sem henni fylgir passar illa inn í þá formúlu. Og þegar upp er staðið þá er það kannski mikilvægur hluti af þessu lífsþroska okkar að skipta fullkomnun út fyrir aðrar áherslur sem eru meira gefandi fyrir sálina, færa okkur meiri dýpt og vellíðan. Mér fannst ég hafa himin hönduð tekið þegar ég fann þessa tilvitnunin ástralska rithöfundarins og markþjálfans Dominique Bertolucci í bókinni The Kindness Pack því ég gæti ekki verið meira sammála henni með þessum orðum sem ég læt verða lokaorðin að þessu sinni:

,,Ef þú ert alltaf að leita að fullkomnun, verður þú aldrei hamingjusamur. Ef þú einblínir á að vera hamingjusamur, þá skiptir fullkomnun þig engu máli.“

ree


 
 
 

Comments


©2020 by Lukkan made with Wix.com

bottom of page