Mygind mantran mín
- Margrét
- Apr 6, 2020
- 8 min read
Við erum enn í óvissunni og lifum fyrir einn dag í einu þessa dagana. Fólk sem er í minni stöðu, að vera hraust en í félagslegri einangrun, bíður daglega eftir fundi Almannavarna klukkan 14 til að fá ráð um hvernig við eigum að haga lífi okkar þann daginn og fá upplýsingar um stöðu mála gagnvart ógnvaldinum. Fyrir marga er óvissan ef til vill erfiðasti þátturinn á þessum ógnartímum. Tilfinningin að hafa ekki stjórn á aðstæðunum er svo óþægileg og erfið. Ég held að við séum mörg stödd þar og látum þessar aðstæður trufla sálarró okkar og ræna frá okkur hamingjunni tímabundið. Ef ég horfi á þetta ástand aðeins út frá sjálfri mér þá finnst mér ég hafa upplifað svipað hugarástand og ég er að upplifa núna í nokkrar vikur 2003, og langar að deila með ykkur smá sögu frá þeim tíma og hvernig ég komst í gegnum það tímabil ef það gæti hjálpað einhverjum núna.
Ef við hoppum aðeins inn í tímavélina og förum aftur til haustins 2003. Ég bjó í Danmörku, nýbúin að ljúka masternáminu mínu, vann við freelance skriftir fyrir Fróða blöðin, komin 5 mánuði á leið að þriðja barninu mínu, var hraust og lífið lék við mig og litlu fjölskylduna mína.

Á þessum tíma var danski leikarinn Peter Mygind eitt aðalnúmerið í Danmörku eftir að hafa slegið rækilega í gegn í þáttunum Nikolaj og Julie. Ég man ekki eftir hvaða leiðum en mér barst til eyrna að hann hefði mikla tengingu við Ísland og það vakti forvitni blaðamannsins. Við elskum jú öll Íslandsvini í útlöndum. Þetta var fyrir tíma samfélagsmiðla en tölvupósturinn var kominn til sögunnar. Eftir töluverða eftirfylgni tókst mér að ná sambandi við umboðsmanninn með ósk um viðtal við kappann. Á örskömmum tíma samþykkti hann beiðnina og skyndilega var ég á leið út í Charlottelund að hitta átrúnaðargoðið. Þessi morgunstund er án efa ofarlega á lista yfir skemmtilegustu morgna lífs míns. Ekki nóg með að vera stórkostlegur leikari þá skynjaði ég einhvern x faktor þarna sem kom að manngæsku og þennan einstaka hæfileika að gefa svo mikið af sér á afar óeigingjarnan hátt. Það hefur svo sannarlega komið á daginn þar sem Mygind hefur gefið út fjölda bóka og haldið fyrirlestra um alls konar málefni, allt frá Budda trú að vinnustaðaeinelti, um alla Danmörku. En aftur til baka í Charlottelund þessa morgunstund.
Við ræddum margt og þegar talið barst að unglingsárunum kom í ljós kom að hann þótti fremur ódæll unglingur að mati foreldranna. Þau ákváðu því með stuttum fyrirvara að senda hann til Sviss í heimavistarskóla. Hann þekkti engan, talaði ekki tungumálið og lenti í aðstæðum sem voru langt út fyrir þægindarammann. Á meðan við ræddum þessa lífsreynslu spurði ég hvernig honum hefði tekist að höndla þessar aðstæður. Hann svaraði því (hann var bara unglingsormur á þessum tíma, muniði ) að hann hefði alltaf hugsað þannig að það sé alltaf einhver sem hefur það verr en hann sjálfur. Hann var sterkur félagslega og stóð vel að vígi miðað við marga í skólanum. Hann gerði gott úr þessu og reyndi að hjálpa þeim sem voru verr staddir í hópnum, fékk góða menntun, lærði nýtt tungumál og lauk sínu námi og flutti aftur heim til Danmerkur reynslunni ríkari. Þannig afgreiddi hann þetta í huganum og náði að búa til jákvæða reynslu úr þessum erfiðu aðstæðum.
Það hvernig hann tæklaði aðstæðurnar sat í mér eftir viðtalið. Ég fór að hugsa um mikilvægi þess að gera alltaf gott úr aðstæðunum hverju sinni og hafa í huga að það er alltaf einhver sem hefur það verr en maður sjálfur. Stuttu síðar veikist ég skyndilega af alvarlegri meðgöngueitrun og lögð inn á sjúkrahús. Að vera sjúklingur á sjúkrahúsi í landi óralangt frá stór fjölskyldu og vinum og engir samfélagsmiðlar komnir til sögunnar var mikil reynsla. Óvissan var algjör. Hver dagur rússibani því heilsu minni og ófædda barnsins hrakaði stöðugt dag frá degi. Það voru rannsóknir allan daginn og ég mátti ekki stíga fram úr sjúkrarúminu nema til að fara á klósettið. Þá var einmitt svona stöðufundur daglega þar nýjustu tölur voru kynntar og ég var eini fundagesturinn og með endalausar spurningar til læknana. Á þessum tíma upplifði ég óvissutíma og tilfinninguna að vita ekki hvernig dagurinn færi eða hvað þá heldur morgundagurinn. Ég man hvað mér fannst þetta erfitt og óvissan nagaði mig stanslaust að innan. En þarna fann ég að að var bara eitt að gera í stöðunni því annars myndi ég ærast af áhyggjum. Ég yrði bara að leggja allt mitt traust á þetta fólk sem sá um mína velferð og fylgja þeirra ráðum. Og það var ákveðin léttir að velja að hugsa ekki of mikið um næstu vikur, heldur bara einn dag í einu og fara eftir ráðleggingum sérfræðinganna. Þá rétt eins og núna, vissi ég bara það eitt að þetta tímabil tæki enda á einhverjum tímapunkti. Og einmitt á þessum tíma fór ég að hugsa hvernig hefði Peter Mygind tæklað þessar aðstæður og fór að tileinka mér hans hugsunarhátt. Þetta var ekki alslæmt hugsaði ég þegar mesta hræðslan tók sér bólfestu í huganum. Hugsaði meðal annars hér er ég á fínu sjúkrahúsi með góða lækna sem hugsa um mig og eru þjálfaðir í að takast á við svona aðstæður. Ég man ég hugsaði ég er þakklát að vera ekki alein, þótt ég saknaði fjölskyldu og vinanna frá Íslandi sárt þessar vikur. Ég á mann og börn sem heimsækja mig á hverjum degi þótt ég væri oft farin að telja niður mínúturnar í að sjá glókollana mína koma hlaupandi inn á stofuna til mín. Ég æfði mig til dæmis í 60 sinnum töflunni til að telja niður mínúturnar í heimsóknartímann. Fjölskyldan græjaði sjónvarp og DVD spilara til að hafa inn á stofunni hjá mér (ekkert Netflix muniði) og ég held að ég hafi horft á eiginlega allar DVD myndir sem til voru á þessum tíma til að stytta mér stundirnar. Ég hugsaði stanslaust um leiðir til að finna fyrir þakklæti í þessum aðstæðum.

Einn hjartfólgnasti minjagripurinn frá þessu tímabili (fyrir utan allar minningarnar) er lítil gúmmífígúra af Dóru í Leitin að Nemó. Á þessum tíma var þessi teiknimynd sú allra vinsælasta og 5 ára sonur minn aðdáandi númer eitt. Við kúrðum oft saman í sjúkrarúminu að horfa á Nemó. Honum fannst þetta ástand á móður sinni vægast sagt ósanngjarnt en var alltaf glaður og duglegur að koma og heimsækja mig þessi elska. Einn daginn sem oftar kemur hann á fleygiferð inn í sjúkrastofuna, smellir fisknum sem var með segli til fóta á sjúkrarúmi svo ég gæti séð fígúruna og segir með öndina í hálsinum: „Mamma, af því þú ert svo mikill aumingi og alltaf ein, þá ætlar Dóra alltaf að vera hjá þér“ Danskan og íslenskan runnu stundum saman hjá orkuboltanum en það sem hann meinti blessað barnið var að hann vorkenndi aumingja mömmu sem var alltaf ein. Dóra hefur fylgt mér í gegnum súrt og sætt allar götur síðan og verið heilladís aumingjans. Það er ekki langt síðan að segullinn datt af Dóru og þá var henni smellt í ramma.
Ég held samt þegar ég hugsa til baka að samtalið við Mygind hafi hreinlega komið mér í gegnum þessi jól og sjúkrahúsdvöl. Ég er svo forlagatrúar að ég held að mér hafi verið ætla að taka þetta samtal við hann á þessum tímapunkti fyrir þessa lífsreynslu sem ég átti eftir að ganga í gegnum. Ég fékk að fara heim í tvær klukkustundir á aðfangadagskvöld og borða með fjölskyldunni og þurfti svo að bruna aftur beint upp á spítala. Tengdaforeldar mínir höfðu komið út á Þorláksmessu og héldu yndisleg jól með litlu fjölskyldunni. Þegar ég gekk inn á sjúkrastofuna eftir jólamatinn, vitandi að ég var eini sjúklingurinn á deildinni, fann ég einmannaleikann hellast yfir mig og mér leið eins og Palli var einn í heiminum. Það var á þessu kvöldi sem ég tengdi við ræðurnar í aðfangadagsmessunni þegar prestar biðja fyrir þeim sem eru á sjúkrahúsum. Og um það bil þegar tárin byrjuðu að trilla niður kinnarnar og ég að detta í sjálfsvorkunn yfir að eyða ekki aðfangadagskvöldinu með þeim sem mér þótti vænst um, ákvað ég að hugsa til Mygind og hvernig hann hefði tæklað þetta og þá náði ég stjórn á tilfinningarússíbananum. Ég horfði út um gluggann, það snjóaði aðeins, svona bíómyndajólasnjór, og allt var svo friðsælt. Á meðan ég horfði út fann ég friðinn utan frá færast yfir mig. Ég horfði á sjúkrahúsbygginguna fyrir utan og ímyndaði mér að kannski væri einhver þarna að berjast við krabbamein eða væru dauðvona og hugsanlega að upplifa sín síðustu jól. Ég var ekki í þeim sporum. Ég yrði þó vonandi ef Guð lofaði heima næstu jól með nýja barnið mitt og fjölskylduna mína. Þar sem ég sat þarna í Pollýönnu hugsunum mínum kom læknir inn til mín og settist hjá mér. Hann var ættaður frá Kólumbíu og saknaði líka fjölskyldu sinnar þetta kvöld. Það sem eftir var kvöldsins skiptumst við á sögum um jólahaldið í okkar heimalandi og minningum tengdum þeim, og þetta aðfangadagskvöld er mér afar minnistætt að svo mörgu leyti. Mygind mantran mín kom mér í gegnum alla jólahátíðina og allan dramann sem átti eftir að eiga sér stað á meðan spítaladvölinni stóð og hef ég notað hana óspart allar götur síðan.
Ef við spólum okkur fram til dagsins í dag þá vitum við fyrir víst að þetta ástand núna er bara tímabundið og ef allir hjálpast að við að fylgja fyrirmælum gengur það fyrr yfir. Það er svo ótalmargt sem við getum verið þakklát fyrir og tekið Mygind möntruna á þessa dagana. Ég er persónulega óendalega þakklát fyrir að geta unnið heima. Ég veit að það eru ekki nærri allir sem geta það því störfin okkar eru svo ólík. Ég ber jafnframt svo mikla virðingu fyrir öllu heilbrigðisstarfsfólkinu í framlínunni, hvort sem það eru læknar, sjúkraliðar, hjúkrunarfræðingar, fólk í ummönnunarstörfum og öllum sem eru að standa vaktina þarna úti á heilbrigðisstofnunum. Þetta eru hetjurnar okkar og við verðum að muna eftir þeim og þeirra hetjudáð þegar öllu þessu er lokið.
Svo eru það líka hetjurnar sem halda tannhjóli atvinnulífisins gangandi, fólkið á gólfinu í verslunum, í alls kyns þjónustustörfum, bílstjórarnir, í raun allir þeir sem sjá til þess að við hin getum verið heima. Og ekki má gleyma kennurunum og öllu starfsfólkinu sem hugsar um börnin stór og smá. Þau geta ekki unnið heima nema að hluta og eiga miklar þakkir skilið fyrir sitt starf. Við hin sem getum unnið heima verðum að átta okkur á hvað það eru mikil forréttindi á þessum tímum. Og ég, sem er mjög félagslynd að eðlisfari, og hef mikla þörf fyrir samskipti við vini mína og fjölskyldu, er sömuleiðis svo þakklát fyrir alla samfélagsmiðlana og alla leiðirnar til að vera í samskiptum við aðra. Við getum hringt, sent skilaboð í símanum, notað Facebook, snappið og svo mætti lengi telja. Við sem kunnum á þessa miðla og höfum aðgang að góðu netsambandi höfum ekki rétt á að kvarta fyrir einangrun að mínu mati. Notum tæknina til samskipta. Ég er með meiri áhyggjur af einangrun eldra fólksins sem kann ekki á þessa tækni né er kannski ekki með ipada eða gsm síma inn á hjúkrunarheimilunum. Þar kemur starfsfólkið sterkt inn og ég hef heyrt um nokkur dæmi að starfsfólkið sé að græja alls konar lausnir til að koma á samskiptum milli þeirra eldri og afkomendana svo að þau geti séð hvort annað og spjallað.
Ég veit ekki hvort að Mygind mantran hjálpi einhverjum í þessu sérstaka ástandi sem ríkir núna og kannski á hver og einn sína eigin möntru til að nota á svona óvissutímum. Mig langaði bara að deila þessu með ykkur ef þetta gæti hjálpað einhverjum. Það er svo mannlegt að finna fyrir kvíða og ótta á svona tímum. Gleymum samt ekki að það eru ákveðnir þættir sem við höfum ekki stjórn á eins og þetta ástand en aðrir sem við höfum stjórn eins og hugsunum okkar. Eyðum orkunni í að skapa góðar hugsanir og leyfa ekki ástandinu að taka yfir hugann okkar. Finnum litlu hlutina í lífinu til að gleðjast yfir og látum þær hugsanir flæða. Setjum fókusinn á allt það sem er jákvætt og við getum verið þakklát fyrir. Höfum í huga að þetta er tímabundið ástand og einn daginn verður COVID tímabilið minningin ein.
Sendi ykkur öllum hlýjar kærleikskveðjur og passið vel upp á ykkur sjálf, hvert annað, og hugsum hlýlega til allra þeirra sem eru veikir og aðstandenda þeirra. Við komumst í gegnum þetta saman með kærleik og samheldni að leiðarljósi.



Comments