Sérstakir tímar
- Margrét
- Mar 15, 2020
- 3 min read
Ég veit ekki með ykkur en mér finnst við vera stödd á mjög sérstökum tímum núna í skugga Covid19 veirunnar og þeim áhrifum sem hún hefur á heilbrigði okkar og alla heimsbyggðina. Eftir allan fréttaflutninginn í vikunni fann ég hvernig óttinn við hið óþekkta var að taka yfirhöndina hjá mér og ég upplifði mig varnarlausa. Yfir mig helltust sömu óttablöndnu tilfinningar og gerðu þegar Geir bað Guð að blessa Ísland árið 2008. Ef það er eitthvað sem ég óttast þá er það að upplifa þá rússsibanareið og kaótíska ástand sem skapaðist þá.
Sem betur fer náði ég nú að núllstilla mig og kalla fram jákvæðu hugsanirnar og taka skynsemissamtalið við sjálfa mig. Ég reyndi að óttagreina mig og ætla að deila því samtali hérna með ykkur ef einhver ykkar skyldi nú vera á sama stað í kvíðanum. Ef við brjótum þetta aðeins niður og tökum smá skynsemissamtal við okkur sjálf þá hljómar það einhvern veginn svona. Við hvað er maður hræddur? Jú það er ótal margt. Hræddur við að veikjast. Hræddur við að sínir nánustu veikist. Hræddur við að smita aðra. Hræddur við að smitast af öðrum.
Ég held að þessi hræðslutilfinning sem hellist yfir okkur sé alveg eðlileg og mannleg. Það eina sem við getum gert er að hlusta á þetta frábæra þríeyki sem er stöðugt að upplýsa okkur um skynsamlegustu leiðirnar og hvað við getum gert til að forðast smit og smitleiðir. Ef við veikjumst, þá er það bara þannig, og ekkert sem hægt er að gera í því annað en að fylgja fyrirmælum um hvernig við eigum að haga okkur sem sjúklingar. Óttinn getur nefnilega tekið af okkur völdum og yfirtekið hugsanirnar og þá er skynsemin oft horfin.
Sjálf er ég líka búin að fá svona yfirþymandi hræðslutilfinningu vegna efnahagslífisins og nú skellur á önnur kreppa og verður miklu verri og þetta versnaði við hverja frétt sem ég las og hlustaði á þarna á fimmtudag og föstudag. Sem betur fer tók skynsama Margrét yfirhöndina líka þarna. Það er alveg sama hvað ég dett í miklar kvíðahugsanir yfir efnahagslífi landsins, heimsins, hvort að Icelandair fari á hausinn og ferðaþjónustan deyji út og þar með gjaldeyristekjur landsins – ég sem einstaklingur fæ engu breytt. Alveg sama hversu miklar áhyggjur ég hef. Það eina sem ég fæ út úr áhyggjunum er svefnleysi, verri heilsa og lélegra ónæmiskerfi. Ef ég ætti töfrasprota sem gæti breytt þessu myndi ég hlaupa með hann fyrst til Þórólfs og láta hann lækna alla og stoppa vírusinn og fara svo með hann til Bjarna og Katrínar og leyfa þeim að nota hann, en ég á því miður ekki svona töfrasprota. Ég fæ engu breytt og því gera þessar kvíðahugsanir ekkert annað en að valda mér hugarangri.
Ég er hins vegar búin að finna mína aðferð til að losna við þessar erfiðu og yfirþyrmandi hræðsluhugsanir. Um leið og þessar hugsanir koma upp, reyni ég markvisst að ýta þeim í burtu og hugsa eitthvað jákvætt og skemmtilegt. Eitthvað sem skapar og gefur mér gleði, góðar tilfinningar og lætur mér líða vel. Ef við hugsum jákvæðar hugsanir þá líður okkur betur, það er margsannað. Þessa dagana er mjög mikilvægt að anda djúpt og huga að innri vellíðan og ekki síður að rækta líkamann. Ef manni er illa við að fara í sund eða á líkamsræktarstöðvar er hægt að fara í göngutúr, út að skokka, eða skella sér á skíði. Fyrir þá sem eru kannski í sóttkví og þurfa að vera innivið er hægt að opna alls kyns líkamsræktaröpp í símanum með æfingum sem er hægt að gera heima.
Fyrir þá sem líður illa vegna þessa ástands þá er um að gera að tala um það við sína nánustu og ég vil líka benda á Hjálparsíma Rauða krossins 1717. Oft hjálpar það mikið bara að geta rætt um kvíðann sinn við aðra. Höfum í huga að þetta ástand er tímabundið og við erum öll að fást við þessa vá með einum eða öðrum hætti. Virðum kvíða og ótta annarra við þessari vá. Hjálpumst að við þetta verkefni. Hugsum hlýlega til þeirra sem eru veikir og aðstandenda þeirra sem geta ekki setið hjá veika fólkinu sínu og sýnt því umhyggju. Sýnum sjálfum okkur og hvort öðru kærleik og umhyggju bæði í orði og hegðun. Ef þessi heimur hefur einhvern tímann þurft á samstöðu okkar allra að halda þá er það núna.




Comments