Áhættan við ástina
- Margrét
- Sep 20, 2020
- 6 min read
Það er gott að elska syngur Bubbi svo fallega og margir taka undir þann söng. Ástin í sinni tærustu mynd er mögnuð tilfinning og mikið stýriafl í lífi okkar. Fræðimönnum greinir á hvort að það sé ein af frumþörfum mannsins að elska og vera elskaður en alveg óhætt að fullyrða að flestir leitist eftir því í lífinu með einum eða öðrum hætti.
En hvað er ástin, gæti maður spurt og þá á ég við ást þar sem einn einstaklingur verður ástfanginn af öðrum. Við þekkjum svo margar tegundir ástar og höfum öll svo ólíkar skilgreiningar á því hvað er ást tveggja einstaklinga. Hvernig getum við greint á milli þessa að vera að upplifa stundarhrifningu, kynferðislegt aðdráttarafl og sanna ást? Ég get ekki svarað þessu enda margir sérfræðingar í ýmsum fræðum sem reynt hafa að svara þessu í margar aldir og ekki komnir að einni sameiginlegri niðurstöðu. Við getum spurt okkur hvort að það sé ástin sem blossar upp og verði brjálæðislega rómantísk um leið og hún kviknar eða er það bara stundahrifing og ástin komi síðar? Eða er falleg og einlæg vinátta tveggja einstaklinga ást ef kynferðislegar langanir koma ekki við sögu?
Sjálfri finnst mér textinn við lag Björgvins Halldórssonar, Ástin, ná einhvern veginn að fanga það hversu flókið og erfitt viðfangsefni það er að skilgreina þessa blessuðu ást:
,,Ástin kann að hrópa og ástin kann að læðast
Hún kemur allt í einu eða hægt og hljótt
Ein ást getur dáið meðan önnur er að fæðast
og ekki má gleyma þeirri sem kom allt of fljótt“
Á meðan við erum ástfangin verður allt betra. Við svífum um á bleiku skýi, dagarnir verða betri, samferðafólkið skemmtilegra og lífið í eins konar glimmersprengju. Fiðrildið í maganum að hitta ástina þína. Snertingin. Augnaráðið. Tíminn sem þið eyðið saman líður eins og örskot og söknuðurinn þegar þið eruð ekki saman verður óbærilegur. Smám saman rennur ástarbrímið af nýástföngnu fólki en eftir stendur ástin og tveir einstaklingar sem elska hvorn annan.
Þeir sem hafa upplifað að lenda í að missa þá sem þeir elska, vita allt um það hversu erfitt það er og getur tekið þegar ástarsorgin knýr dyrum. Sársaukinn í hjartanu er óbærilegur og allt sem minnir á viðkomandi skapar sorg og söknuð, staðir, lög, ljósmyndir og minningar. Það getur tekið mjög langan tíma að jafna sig á slíku, þó svo að það sé auðvitað mjög persónubundið. Sumir eru í mörg ár að syrgja á meðan aðrir hrista það fljótt af sér og finna nýja ást fljótt aftur. Við, mannfólkið, erum svo ólík og tökumst ólíkt á við þessar aðstæður.
Ástin er eflaust eitt sterkasta aflið í samskiptum okkar. Ég held að í grunninn viljum við mannfólkið elska og vera elskað þrátt fyrir að margir sem hafa ef til vill lent í ástarsorg og sársauka vegna ástar, segi gjarnan að það sé búið að gefast upp á ástinni. En í rauninni er það ekki búið að gefast upp á ástinni, heldur er það einfaldlega að forða sjálfum sér frá sársaukanum sem hún getur valdið.
Ég las einhvern tímann að ástin sem slík særði ekki. Í sinni tærustu mynd er hún ein af bestu tilfinningum sem við uppifum og gefur okkur svo mikið og framkallar svo mikla hamingju og gleði í hjartanu. Ég er svo sammála því og birtingarformið á tærri ást getur verið með mjög ólíkum hætti. Vandamálið er þegar ástin slökknar sem getur líka verið með afar misjöfnum hætti. Það getur smá sama slokknað á henni, eða hún verið eins og pera sem springur allt í einu. Það eru afleiðingarnar og eftirköstum sem særa, valda vanlíðan og erfiðleikum.
Hvað gerist þegar ástin brestur og tveir elskendur halda hvor í sína áttina? Við förum í vörn og segjum gjarnan að við ætlum aldrei aftur að elska eða lenda í þessum aðstæðum af því sársaukinn er óbærilegur. Við tökum einfaldlega ekki áhættuna á því að elska aftur, vegna afleiðinganna á glataðri ást. Ef það væri bara off takki sem væri hægt að nota og slökkva á tiltekinni tilfinningunni að þú elskaðir viðkomandi áfram, væri lífið aðeins einfaldara. Við yfirfærum allan sársaukann við sambandsslit á ástina sem slíka og kennum henni um.
Þessari fallegu tilfinningu.
Með auknum þroska og þeirri vegferð sem ég hef verið á síðastliðin ár, hef ég komist að þeirri niðurstöðu að það sé afar mikilvægt að láta ekki þá staðreynd að við séum ástfangin og elskum annan einstakling, stjórna því hvort við séum hamingjusöm í hjartanu. Ég verð að vera nóg fyrir mig í mínu hjarta og fylla það hamingju. Ef ég er ástfangin og mér líður vel, bætast á hamingjustigin, en þessi ást sem ég hef á viðkomandi einstaklingi má ekki stýra minni hamingju nema upp að vissu marki. Ef leiðir skilja og ég er ein, má ég ekki líta á það sem ávísun á óhamingju og ásaka hinn aðilann fyrir að valda henni Ég er ennþá ábyrg fyrir minni hamingju.
Við getum líka eytt löngum tíma í að elska ranga fólkið og kunna ekki að meta þegar rétta fólkið elskar okkur. Við getum eytt óheyrilega mikilli orku í að reyna að fá fólk sem kann ekki að meta okkur til að elska okkur og misst af ótal tækifærum með því að sjá ekki þá sem elska okkur og sýna okkur sanna ást.
Því meira sem ég velti ástinni fyrir mér, hef ég komist að þessari niðurstöðu. Það eru stjarnfræðilega litlar líkur á að finna einhvern sálufélaga snemma á lífsleiðinni og elskir hann vandræðalaust til æviloka. Þetta gerist oft í bíómyndunum en í raunveruleikanum er þetta örlítið fólknara. Heimurinn er nefnilega fullur af fólki sem þráir ástina og að geta fundið gagnkvæma ást en hlutirnir eru oft ekki alveg svo einfaldir.
Það eru til einstaklingar sem hafa upplifað ástina og elska hvort annað en getur kannski ekki eytt lífinu saman sem elskendur því höf, menningarmunur og aðstæður skilja það að. Og heimurinn er líka fullur af fólki sem er í sambandi, og elskar ekkert endilega hvort annað lengur. Það hefur verið saman svo lengi að sambandið er orðið að stofnun og of mikið vesen að brjóta upp mynstrið. Svo ekki sé minnst á þá sem geta ekki hugsað sér að skilja af fjárhagslegum ástæðum. Hefur ekkert með ást eða hamingju að gera. Í heiminum má líka finna fjölda hjónabanda sem verða til vegna vals foreldra þeirra og hafa lítið með ást og hrifningu að gera amk í upphafi sambandsins. Og það er líka fullt af samböndum þarna úti þar sem ofbeldi gagnvart öðrum aðilanum er beitt, og viðkomandi situr fastur þar. Það er eitthvað allt annað en ást.
En hvað er hægt að gera þegar ein ást deyr í sambandi þar sem lagt er upp með að í því séu tveir aðilar sem elska hvorn annan? Einfaldast væri kannski að grípa í hatrið sem liggur svo nálægt ástinni og mörg sambönd enda þar með tilheyrandi darraðadansi. Ég held hins vegar að ef við mögulega getum sleppt hatrinu og unnið eitthvað áfram með ástina, liði öllum betur. Ef fólk er búið að elska einhvern einstakling í lengri tíma, þá er ekkert hægt að segja næsta dag jæja, nú er ég hættur að elska þessa manneskju. Pípan á milli hjarta, tilfinninga og skynsemi er einfaldlega of löng til að meðtaka þessa skilaboð að þetta geti bara gerst sjálfkrafa. Má ekki bara elska hana líka áfram, en á öðrum forsendum? Setja ástina í annað hólf í hjartanu að minnsta kosti á meðan við erum að venjast tilhugsuninni um að ástin sé dáin og sambandinu sé lokið.
Við verðum líka að horfast í augu við það að þótt að við elskum einhvern þá er ekkert þar með sagt að viðkomandi elski þig eða á sama hátt eða jafn lengi og þú. Ég held að það sé hlutur sem svo margir velti ekki fyrir sér. Við getum elskað einhverja manneskju án þess að hún viti það í langan tíma og sú ást er óháð því hvort við fáum þá ást endurgoldna. Á sama hátt geta verið manneskjur þarna úti sem þú hefur ekki hugmynd um að elski þig og kannski færðu aldrei að vita það. Við getum aldrei gert kröfu á að aðrir elski okkur jafn mikið og til baka á saman hátt og við gerum. Það á við um alla sem við erum í samskiptum við, maka, vini, börn, foreldra. Það eru bara okkar tilfinningar sem við skynjum og höfum stjórn á en við höfum ekki stjórn á tilfinningum annarra.
Og við verðum líka að muna að það skiptir alveg jafn miklu að elska sjáfan sig og aðra og því er afar mikilvægt að næra ástina gagnvart sjálfum sér og sinna henni, rétt eins og þessari sem við viljum gjarnan gefa þeim sem við elskum. Það er grunnurinn að svo mörgu að vera fær um að elska sjálfan sig og setja sig og sínar þarfir í fyrsta sæti.
Þrátt fyrir að vita allt um það hvað gerist í lífinu og sálinni þegar ástin deyr og áhættan á hjartasorg og stjörnuhrapi, gæti ég samt ekki verið meira sammála Bubba. Það er nefnilega svo gott að elska. Og það er betra að hafa elskað og misst, en aldrei elskað þrátt fyrir allan sársaukann sem því fylgir að missa ástina sína. Því ef maður leyfir sér að upplifa ást og elska þá hefur maður fengið að upplifa þessa dásamlegu tilfinningu sem er ekki hægt að útskýra með orðum. Stundum endist þessi ást í gegnum allt lífið en stundum einungis í stutta stund en upplifunin varir að eilífu.
Niðurstaðan mín er einfaldlega sú að ástin er fyrirbæri sem er vonlaust að ætla að skilgreina og skilja. Hún er þarna úti á eigin forsendum. Dyntótt, dásamleg og áhættunnar virði.




Comments