Þakklætis sprengjan
- Margrét
- Feb 17, 2020
- 2 min read
Mig langar að byrja á að segja eitt stórt takk fyrir öll viðbrögðin, hrósin og klöppin á bakið sem ég er búin að fá frá ykkur eftir að ég opnaði síðuna. Ég hefði aldrei getað gert mér í hugarlund þessi mögnuðu viðbrögð við hugmyndinni um síðuna og pistlunum þar sem ég sagði frá hamingjuferðinni. Hvert sem ég hef komið og hitt fólk sem var búið að sjá færsluna á Facebook hefur það farið að ræða vefsíðuna við mig. Hrósa mér fyrir hugrekkið, einlægnina, ræða innihaldið og hvetja mig áfram á sömu braut. Þessi viðbrögð eru svo gríðarleg hvatning til að halda skrifunum áfram og auka metnaðinn við síðuna og hafa fyllt hjartað svo óendanlega miklu þakklæti.
Og þegar hjartað er fullt þakklætis langar mann oft að deila því með þeim sem manni þykir vænst um. Það er fastur liður þegar nýr vefur er opnaður í fyrirtækjum að pöntuð er kaka til að fagna nýja vefnum. Ég gat ekki sleppt þeirri hefð og bauð mínum allra nánustu í kökuboð sl. mánudagskvöld þar sem við gæddum okkur á köku með mynd af vefnum og skáluðum í kampavíni fyrir vefnum og framtíð hans. Eftir þessa formlegu opnun þarf nú að fara að vinna hörðum höndum að vefnum og ég lofa hér með að núna fara pistlarnir og meira efni að detta reglulega inn á síðuna.

Það er varla hægt að ræða síðustu viku án þess að minnast á Óskarsverðlaunakonu vikunnar og hin stórkostlegu afrek Hildar Guðnadóttur. Þvílíkur árangur og þvílík fyrirmynd. Hamingjan er henni greinilega hugleikin því í viðtali við Fréttablaðið helgina fyrir Óskarsverðlaunahátíðina, lét hún þessu dásamlegu orð falla þegar hún ræddi um það að komast aftur heim til Berlínar eftir hátíðarhöldin. ,,Ég hlakka til að komast aftur í hversdagslífið og hafragraut. Hamingjan felst nefnilega í hafragrautnum“.
Ég er svo hjartanlega sammála Hildi í þessum efnum – Hafragrauturinn er nefnilega mjög mikilvægur hluti af hamingjuferðalaginu.




Comments