top of page
Search

Til hamingju með daginn Astrid Lindgren


ree

Í dag er fæðingardagur eins besta rithöfundar í heimi að mínu mati, en Astrid Lindgren fæddist á þessum degi árið 1907.

Að fá að alast upp í ævintýraheimi saman með Emil í Kattholti, Línu Langsokk, og Bræðrunum Ljónshjarta voru mikil forréttindi. Þessi barnæska átti sér stað löngu fyrir tíma internetsins og ennþá var sjónvarpslaust á fimmtudögum. Játningin er því öruggur stimpill á að ég sé orðin miðaldra.

Ég ólst upp við að fá bækur í jólagjöf og gat gengið að því sem vísu að fá gullmola úr smiðju Astrid Lingren frá ömmu og afa. Ég reyndi að koma þessu arfi áfram til minna barna. Ég las öll ævintýri Lindgren fyrir þau og fór meðal annars með þau í hinn stórkostlega Ævintýraheim Astrid Lindgren í Wimmerby í Smálöndunum þar sem ævintýrin birtast ljóslifandi og finna má Emil upp í flaggstönginni og Línu að berjast við innbrotsþjófa.

Ég er aðeins hugsi yfir þróuninni í dag og þeirri upplifun sem ég hef gagnvart bókum og börnum. Samkeppnin um afþreytingu er orðin svo mikil og í dag virðist það ekki vera í tísku að lesa og vera með bækur inn á heimilum, nema kannski helst til að nota sem hilluskraut.

Ég er þeirrar skoðunar að þrátt fyrir alla samfélagsmiðlana og afþreyingu í smart tækjum, er svo mikilvægt að leyfa börnum að hlusta á sögur og ævintýri. Að gefa þeim tækifæri til að lifa sig inn í ævintýraheiminn og upplifa mátt bókanna.

Ég vona svo sannarlega að foreldrar í dag beri gæfu til að viðhalda þessari hefð að lesa fyrir börn og kynna þau fyrir ævintýrum og hversu máttugar og dásamlegar bækur geta verið.

Takk Astrid Lindgren fyrir allt sem þú hefur gefið börnum þessa heims 🙏🏻❤️

 
 
 

Comments


©2020 by Lukkan made with Wix.com

bottom of page